Svanheiður Lóa Rafnsdóttir hefur verið ráðin yfirlæknir brjóstamiðstöðvar á Landspítala frá 1. maí 2022.
Svanheiður Lóa lauk námi frá læknadeild Háskólans í Hamborg árið 2007. Hún stundaði sérnám í almennum skurðlækningum og brjóstaskurðlækningum við Sahlgrenska háskólasjúkrahúsið í Gautaborg og hlaut sérfræðileyfi árið 2014.
Svanheiður Lóa starfaði á Sahlgrenska háskólasjúkrahúsinu í Gautaborg árin 2011-2018 við brjóstaskurðlækningar og almennar skurðlækningar. Þar var hún í forsvari fyrir framþróun brjóstaskurðlækninga á brjóstamiðstöð spítalans með áherslu á enduruppbyggingu brjósta samhliða krabbameinsskurðaðgerðum á brjóstum. Einnig sinnti hún vísindavinnu og kennslu innan sérgreinarinnar.
Frá árinu 2018 hefur Svanheiður Lóa verið sérfræðingur á kviðarhols- og brjóstaskurðlækningadeild Landspítala. Hún hefur verið teymisstjóri brjóstaskurðlækningadeildar frá árinu 2019 og verið leiðandi fulltrúi skurðlækninga í verkefnum er snúa að uppbyggingu brjóstamiðstöðvar.
Svanheiður Lóa hefur sinnt stundakennslu bæði við læknadeild og hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands frá árinu 2018.