Fyrsta skóflustunga að nýju bílastæða- og tæknihúsi við Hringbraut var tekin 19. maí 2022 og er liður í uppbyggingu Landspítala þar.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra tók fyrstu skóflustunguna ásamt Pétri Guðmundssyni stjórnarformanni Eyktar og Runólfi Pálssyni forstjóra Landspítala. Þá tóku fulltrúar starfsmanna, þær Rannveig Rúnarsdóttir frá Landspítala og Þóranna Elín Dietz frá Háskóla Íslands einnig skóflustungu að húsinu.
Nýtt bílastæða- og tæknihús verður um 19.000 fermetrar að stærð með um 500 bílastæði. Auk þess eru um 200 hjólastæði í húsinu en einnig eru 200 bílastæði í bílakjallara við meðferðarkjarnann fyrir sjúklinga og aðstandendur.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra: „Það er ánægjulegt að enn bætast við byggingar sem eru á framkvæmdastigi í þessari mikilvægu uppbyggingu við nýjan Landspítala. Vel hefur tekist til við framkvæmdir á svæðinu og bílastæða- og tæknihúsið er áfangi á þessari vegferð að nýjar byggingar á svæðinu myndi eina heild,“
Gunnar Svavarsson framkvæmdastjóri Nýs Landspítala: „Jarðvinnu vegna rannsóknahússins er lokið og nú strax hefst nýr áfangi við jarðvinnu á bílastæða- og tæknihúsinu. Eftir alútboð var samið við Eykt um bæði hönnun og verkframkvæmd og markar því dagurinn eitt af mörgum mikilvægum skrefum í hraðri uppbyggingu við Hringbraut.“
Runólfur Pálsson forstjóri Landspítala: „Það er ánægjulegt að sjá hversu góður skriður hefur verið á verkefninu um nýjan Landspítala. Við fögnum hverjum áfanga, stórum sem smáum, á þessari vegferð því takmarkið færist nær. Bílastæða- og tæknihúsið er mikilvægur hlekkur í þessu stóra verkefni.“
Pétur Guðmundsson, stjórnarformaður Eyktar ehf: „Við hjá Eykt þekkjum vel til Hringbrautarverkefnisins því við erum núna að steypa upp meðferðarkjarnann, þar er allt á fullri ferð. Samstarfið gengur vel við Nýjan Landspítala og húsið sem nú fer í byggingu er enn ein ný áskorun.“
Um bílastæða- og tæknihúsið
Bílastæða- og tæknihúsið verður um 19.000 fermetrar að stærð og er átta hæðir, fimm ofanjarðar og þrjár neðanjarðar. Bílastæða og tæknihús (BT húsið) mun rúma stæði fyrir 510 bíla. Í húsinu verður hjólageymsla fyrir 200 hjól. Bíla- og hjólastæði svæðisins verða til framtíðar nægjanleg miðað við allar framtíðarspár. Einnig er verið að byggja bílakjallara undir Sóleyjartorgi, sambærilegan bílakjallara Hörpu, sem verður á tveimur hæðum með 200 bílastæðum ætluð sjúklingum og gestum. Þar verður gott aðgengi beint inn í spítalann. Úr bílastæða- og tæknihúsinu verður einnig hægt að fara milli húsa eftir göngum. Tæknihluti hússins er afar mikilvægur, þar verður tæknirými fyrir varaaflsvélar Landspítala þannig að tryggt sé að rafmagn verði til staðar á öllu spítalasvæðinu ef truflanir verða á afhendingu rafmagns og það sama gildir um búnað fyrir varakyndingu ef skortur verður á heitu vatni. Þá verður í húsinu kælikerfi, loftinntök og loftræstibúnaður vegna spítalastarfseminnar.
Rauða örin á myndinni fyrir neðan vísar á hvar nýja bílastæða- og tæknihúsið á að rísa.