Handriðin á turni Landakots eru aftur komin á sinn stað en þau voru tekið niður vegna lagfæringa á þeim í tengslum við endurbætur á húsnæðinu sem staðið hafa yfir í nokkur ár.
Handriðin voru hífð á sinn stað 24. maí 2022 og meðfylgjandi myndir voru teknar þá. Þetta er í reynd síðasti áfangi í endurgerð handriða á Landakoti, þau hafa verið tekin niður, sandblásin og endursmíðuð að hluta til að mæta kröfum byggingareglugerðar varðandi hæð þeirra og síðan send norður í land í galvanhúðun. Handriðið á 8. hæð er stærst og efnismest og setur mikinn svip á turninn. Það var smíðað árið 1962 og hefur því enst vel.
Í vetur hefur verið unnið að endurgerð turnsins í meiri háttar viðhaldi. Í þessum áfanga er, eins og árin 2014-2022, verið að endurnýja alla glugga, hurðir og ytra byrði Landakots með marmarasalla. Áætluð verklok þessa næst síðasta áfanga eru í byrjun júlí 2022.
K- álma Landakots var teiknuð af Sigurði Guðmundssyni arkitekt árið 1933 í funkisstíl. L-álman var teiknuð af Einari Sveinssyni húsameistara Reykjavíkur og Gunnari H. Ólafssyni arkitekt árið 1957 og tekin í notkun 1962-1963.