Gunnar Thorarensen verður yfirlæknir sérnáms á Landspítala frá 23. júlí meðan Tómas Þór Ágústsson tekur við sem framkvæmdastjóri lækninga í fjarveru Ólafs Baldurssonar í eitt ár.
Gunnar mun taka við keflinu með áframhaldandi þróun og uppbyggingu sérnáms og framhaldsmenntunar lækna að leiðarljósi, auk annarra brýnna verkefna er snúa að vinnuskipulagi og -umhverfi sérnámslækna til skemmri og lengri tíma.
Gunnar útskrifaðist með embættispróf í læknisfræði frá læknadeild Háskóla Íslands 2008. Hann lauk sérnámi í svæfinga- og gjörgæslulækningum við Sahlgrenska sjúkrahúsið í Gautaborg og starfaði þar áfram til 2016. Hann kenndi svæfinga- og gjörgæslulækningar, læknisfræðilega siðfræði og greiningu við ákvarðanatöku við læknadeild Gautaborgarháskóla áður en hann hóf störf sem svæfinga- og gjörgæslulæknir á Landspítala 2016. Hann tók við sem kennslustjóri í sérnámi í svæfinga- og gjörgæslulækningum 2018 og hefur samhliða þeim störfum m.a. starfað sem aðjúnkt við læknadeild og gestafyrirlesari við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands.
Gunnar situr í stjórn Svæfinga- og gjörgæslulæknafélags Íslands og Skandinavísku svæfinga- og gjörgæslulækningasamtakanna og situr auk þess í ritstjórn Læknablaðsins. Hann hefur einnig setið í ýmsum nefndum og starfshópum er varða skipulag og uppbyggingu sérnáms og handleiðaraþjálfunar lækna á vegum Landspítala, Háskóla Íslands og heilbrigðisráðuneytisins.