Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, heimsótti Landspítalann í síðustu viku og fundaði meðal annars með Runólfi Pálssyni, forstjóra Landspítalans og Birni Jónssyni deildarstjóra heilbrigðis- og upplýsingatæknideilar.
Landspítalinn hefur síðustu ár unnið ötullega að aukinni nýtingu hugvits og nýsköpunar í þjónustu sinni og má þar nefna stafræna þróun, rafræna sjúkraskrá og samstarf við nýsköpunarfyrirtæki og var ráðherra kynnt fyrir ýmsum af þeim verkefnum. Nú nýlega setti Landspítali í loftið sérstakt vefsvæði tileinkað nýsköpun sem finna má á landspitali.is/nyskopun. Þar má meðal annars finna upplýsingar um nýja umsóknargátt fyrir nýsköpunarfyrirtæki sem hafa áhuga á samstafi við Landspítala. Þá er þar einnig að finna upplýsingar um Nordic Proof sem er norrænn samstarfsvettvangur heilbrigðisstofnana og prófunaraðila á sviði heilbrigðistækni. Stefna Landspítala er að auka vægi nýsköpunar og stafrænna lausna og vera þekktur fyrir nýsköpun á vettvangi heilbrigðisvísinda. Umsóknargáttin er liður í að auðvelda fyrirtækjum að stofna til samstarfs við Landspítala í að koma hugmyndum á framfæri og fjölga tækifærum til samstarfs og samtals milli nýsköpunarfyrirtækja og spítalans.
Með þátttöku Landspítala í Nordic Proof verkefninu er leitast við útvíkka þann vettvang þar sem fyrirtæki og stofnanir hafa til samstarfs á sviði nýsköpunar. Samstarfsnetið veitir heilbrigðistæknifyrirtækjum sem eru að leita að samstarfsaðilum til að prófa hugmyndir sínar, vörur eða lausnir greiðan aðgang að réttu starfsfólki, aðstöðu og faglegri þjónustu til prófana og samvinnu. Nordic Proof samstarfinu er ætlað að auðvelda fyrirtækjum að prófa og sannreyna nýjar heilbrigðislausnir, opna Norðurlönd sem heimamarkað fyrir fyrirtæki með því að auðvelda að hefja samstarf við heilbrigðisstofnanir sem og að láta fleiri fyrirtæki prófa lausnir sínar í norrænu ríkjunum. Frá 2018 til 2021 hefur Nordic Proof sinnt alls 600 prófunarfyrirspurnum frá fyrirtækjum vegna lækningatæki og rafrænna heilsulausna. Með aðild að þessu samstarfi vonast Landspítali til þess að skapa vettvang fyrir aukið samstarf við aðrar norrænar heilbrigðisstofnanir svo og nýsköpunarfyrirtæki á sviði heilbrigðistækni. Sjá nánari upplýsingar um Nordic Proof.