Efsti hluti turnsins á Landakoti hefur verið glerjaður að nýju sem var í meira lagi snúið og umfangsmikið verk.
Meðfylgjandi ljósmyndir af glerjun 8. hæðar turns Landakots tók Þorkell ljósmyndari 12. september 2022.
Myndirnar sýna vel hvað þarf til að koma risastórum rúðum fyrir á sínum stað í mikilli hæð. Til þess þurfti stóran bílkrana, loka varð vörumóttöku og bílastæðum í tvígang að norðanverðu og nota aðalinngang á meðan. Verkið á Landakoti hafði áhrif á aðkomu sjúkra-, matar- og flutningabíla meðan á því stóð. Ekki nóg með það því leyfi flugmálayfirvalda þurfti til verksins vegna þess að kranabóman gnæfði yfir turninn og truflaði aðflug að Reykjavíkurflugvelli. Tímabundið leyfi ISAVA fékkst til verksins og allir voru glaðir.
Ekki er lengra síðan en í vor að mikið tilstand var við þennan sama turn þegar nýju handriði var komið fyrir á honum.
Nú hillir líka undir að nýtt anddyri – vindfang við norðurinngang Landakots verði tilbúið. Unnið er að breytingum þar og meðal annars verið að koma fyrir nýrri rennihurð.