Brjóstamiðstöð Landspítala var formlega opnuð 22. september 2022 að Eiríksgötu 5 í Reykjavík. Þar er á einum stað brjóstaskimun, brjóstamyndgreining, greiningar á sjúkdómum og öflug göngudeildarþjónusta.
Í brjóstamiðstöðinni er heildstæð heilbrigðisþjónusta og öflug þverfagleg teymisvinna vegna sjúkdóma í brjóstum. Þar er þjónusta við fólk á landsbyggðinni og við konur sem eru í hættu á að fá krabbamein vegna stökkbreytinga í genum.
Brjóstakrabbamein er algengasta krabbameinið hjá konum hér á landi. Því fyrr sem sjúkdómurinn finnst þeim mun betri eru lífslíkurnar. Skipuleg skimun er því afar mikilvæg til þess að finna og greina sjúkdóminn snemma.
Í meðfygjandi myndskeiði er sagt frá starfsemi brjóstamiðstöðvarinnar. Myndin var tekin þegar Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra klippti á borða og opnaði brjóstamiðstöðina þannig formlega.
Brjóstamiðstöð - skimun og greining