Kæra samstarfsfólk!
Ég hef síðastliðna mánuði unnið að greiningu á stjórnskipulagi Landspítala í samstarfi við framkvæmdastjórn, forstöðumenn, stjórn spítalans og fagráð auk annarra ráðgjafa. Niðurstaða þeirrar greiningar er sú að til að ná fram mikilvægum umbótum í heilbrigðisþjónustu á Landspítala og í öðrum rekstri stofnunarinnar séu breytingar á stjórnskipulagi spítalans nauðsynlegar.
Stjórn Landspítala hefur farið yfir og samþykkt tillögu að breyttu stjórnskipulagi og fagráðið gefið álit sitt. Í morgun kynnti ég svo heilbrigðisráðherra skipuritið, eins og skylt er lögum samkvæmt.
Megináherslan í nýju stjórnskipulagi er að styrkja klíníska starfsemi spítalans með því að færa aukið umboð og ákvörðunarvald nær framlínu þar sem þjónustan er veitt. Þverfagleg klínísk starfsemi allra fagstétta spítalans fái þannig styrkari grunn til að eflast.
Sérstök áhersla er á hlutverk framkvæmdastjóra hjúkrunar og framkvæmdastjóra lækninga sem leiðtoga stærstu stétta heilbrigðisstarfsmanna á spítalanum. Auk þess að hafa umsjón með menntun nemenda í heilbrigðisvísindagreinum og gæðum og öryggi þjónustu, líkt og áður, verður framkvæmdastjóra hjúkrunar falið að stýra flæði sjúklinga og framkvæmdastjóra lækninga að samhæfa hlutverk sérgreina í bráðaþjónustu spítalans.
Landspítali stendur frammi fyrir miklum áskorunum, meðal annars vegna aukinnar eftirspurnar eftir þjónustu sem skýrist að miklu leyti af öldrun þjóðarinnar en einnig öðrum þáttum. Við því þarf að bregðast með því að þróa starfsemina með aukinni stafvæðingu, nýtingu gagna og nýsköpun en einnig með eflingu dag- og göngudeilda. Til að takast á við þau verkefni er í nýju skipuriti sett á stofn skrifstofa undir stjórn framkvæmdastjóra þróunar sem jafnframt er ætlað að sinna verkefnum tengdum nýjum Landspítala við Hringbraut.
Fjármál og mannauðsmál eru sem fyrr mikilvægur þáttur í stoðstarfsemi spítalans. Þau verða nú sameinuð undir stjórn framkvæmdastjóra rekstrar og mannauðs sem mun einnig bera ábyrgð á stýringu á framleiðni spítalans og almennri stoðþjónustu.
Nauðsynlegt er að koma vísindastarfi á Landspítala aftur í fremstu röð á Norðurlöndum. Til þess þarf að setja aukinn kraft í vísindastarfið og með það fyrir augum flyst forysta vísindastarfsemi, í það minnsta tímabundið, undir forræði forstjóra.
Í ljósi þeirra áherslubreytinga sem hér eru raktar fjölgar framkvæmdastjórum úr 8 í 11 en niður falla störf 10 forstöðumanna. Ný og breytt störf framkvæmdastjóra hvað umfang og ábyrgð varðar verða auglýst til umsóknar á næstunni, sjö störf framkvæmdastjóra klínískra eininga og tvö störf framkvæmdastjóra stoðsviða. Nýverið lét framkvæmdastjóri hjúkrunar af störfum og verður sú staða því einnig auglýst.
Ég er sannfærður um að sú einföldun á stjórnskipulagi sem nú er ráðist í leiði ekki aðeins til hagræðingar í rekstri heldur framar öllu til þess að styrkja og efla alla starfsemi Landspítala með megináherslu á klíníska þjónustu spítalans.
Hér eru svo dregin saman nokkur áhersluatriði og breytingar sem felast í nýja skipuritinu sem tekur gildi 1. janúar 2023:
- Aukin ábyrgð og umfang fært til klínískra stjórnenda í framlínu.
- Framkvæmdastjórar klínískra sviða bera ábyrgð á rekstri, faglegri samhæfingu og gæðum og öryggi þjónustu sinna sviða auk þess að styðja við kennslu og vísindastarfsemi.
- Áhersla lögð á hlutverk framkvæmdastjóra hjúkrunar og framkvæmdastjóra lækninga og þeim veitt aukin ábyrgð.
- Sameining skurðlækningaþjónustu og skurðstofustarfsemi.
- Hjarta- og æðaþjónusta og krabbameinsþjónusta verða saman á sviði.
- Sameining á klínískri rannsóknarstarfsemi og klínískri stoðþjónustu m.a. lyfja- og næringarþjónustu.
- Sameining fjármála og mannauðsmála á skrifstofu undir stjórn framkvæmdastjóra rekstrar og mannauðs sem að enn fremur verður falin stýring á framleiðni spítalans og almennri stoðþjónustu.
- Ný staða framkvæmdastjóra þróunar með veigamikið hlutverk varðandi framþróun í stafvæðingu og nýtingu gagna sem og uppbyggingu í starfsemi dag- og göngudeilda auk undirbúnings vegna nýs Landspítala við Hringbraut.
- Forysta vísindastarfsemi flutt undir forræði forstjóra vegna aukinnar áherslu á eflingu vísindastarfs.
Með kveðju
Runólfur Pálsson forstjóri
Smellið á skipuritsmyndina til að stækka hana.