Frá starfsfólki Barnaspítala Hringsins um inflúensubólusetningar:
Ráðlagt er að bólusetja öll börn með áhættuþætti (sjá neðar) sem eru orðin 6 mánaða gömul (þ.e. frá fæðingardegi og ekki leiðrétt). Ekki er ráðlagt að bólusetja börn sem eru yngri en 6 mánaða. Nýlegar ráðleggingar sóttvarnalæknis leggja til að öll börn yngri en 2 ára (fædd 1.1.2020 til 30.6.2022) fái bólusetningu.
Ráðlagt er að bólusetja alla fjölskyldumeðlimi (sem búa á sama heimili) barns sem er með áhættuþætti, sérstaklega ef barnið er yngra en 6 mánaða.
Ráðlagt er að bólusetja öll börn með einum skammti. Skammtastærð er líka óháð aldri og þyngd. Bólusetningar gegn inflúensu er hægt að fá á heilsugæslustöðvum.
Áhættuþættir eru eftirfarandi:
1. Börn á fyrsta ári, sem fædd eru fyrir 32 vikna meðgöngu og léttari en 1500 gr, teljast hafa áhættuþætti
2. Börn með króníska lungnasjúkdóma, hjartasjúkdóma og alvarlega taugasjúkdóma
3. Auk þess geta aðrar aðstæður flokkast sem áhættuþættir og er þá rétt að ráðfæra sig við starfsfólk Barnaspítala Hringsins