Á Landspítala hefur verið tekið í notkun nýtt fyrirmælakerfi fyrir krabbameinslyf sem er stórt skref fram á við í því að auka öryggi sjúklinga í krabbameinsmeðferð.
Fyrirmælakerfið er viðbót við CATO lyfjablöndunarkerfið sem hefur á undanförnum árum verið notað í lyfjablöndun á Landspítala. Með fyrirmælahlutanum er allt sem við kemur krabbameinslyfjum í einu og sama kerfinu. Þannig hefur orðið til fyrsta lokaða lyfjaferlið á spítalanum.
Tölvukerfið heldur utan um og styður við lyfjaferlið frá upphafi til enda. Þegar læknir velur lyfjakúr reiknar kerfið út rétt magn og birtir viðvaranir ef við á. Niðurstöður rannsókna berast í kerfið sem lætur vita ef gildi eru utan marka. Þá hafa einnig verið útfærð skjáborð í sjúkraskrárkerfinu Heilsugátt sem gefa læknum og hjúkrunarfræðingum mun betri yfirsýn á starfsemina en verið hefur. Lokaskrefið í ferlinu er svo þegar hjúkrunarfræðingur skannar armband sjúklings og strikamerki á lyfjablöndu með sérstakri lófatölvu til að staðfesta að rétt lyf sé gefið réttum sjúklingi á réttum tíma.
Þann 14. desember 2022 var forstjóra og fleiri stjórnendum og starfsmönnum spítalans kynnt nýja fyrirmælakerfið og þá voru meðfylgjandi ljósmyndir teknar.
Í myndskeiðinu er fjallað um fyrirmælakerfið.
Eftirtalin eru viðmælendur:
Agnes Smáradóttir yfirlæknir krabbameina
Harpa Snorradóttir, hjúkrunarfræðingur á göngudeild blóð- og krabbameinslækninga
Baldur Guðni Helgason, lyfjafræðingur hjá lyfjaþjónustu Landspítala
Þórunn Kristín Guðmundsdóttir klínískur lyfjafræðingur
Hannes Þór Bjarnason, verkefnastjóri af hálfu heilbrigðis- og upplýsingatæknideildar