Kæra starfsfólk Landspítala!
Á síðasta degi ársins er fróðlegt að líta yfir farinn veg og gleðjast yfir því sem vel hefur gengið. Árið 2022 var viðburðaríkt, eins og önnur ár, í starfsemi Landspítala. Fyrri hluti ársins einkenndist af viðbragði við ómíkron-bylgjunni og afléttingu allra takmarkana vegna heimsfaraldurs Covid-19. Ég mun seint þreytast á því að hampa þeim árangri sem náðist í stríði við faraldurinn innan Landspítala og þeirri þrotlausu vinnu allra sem að starfseminni komu og urðu til þess að Ísland skarar fram úr í samanburði við önnur lönd.
Að vanda hefur starfsemi Landspítala verið mjög umfangsmikil enda gegnir stofnunin víðtæku hlutverki í íslensku samfélagi. Mikið hefur mætt á bráðaþjónustu spítalans og oft og tíðum reynst áskorun að manna starfsemina. Starfsfólk spítalans hefur sýnt mikla fagmennsku við krefjandi aðstæður og vil ég þakka ykkur öllum vel unnin störf á árinu.
Nú standa yfir breytingar á stjórnskipulagi spítalans og tekur ný framkvæmdastjórn til starfa á nýársdag. Í kjölfarið tekur við endurskoðun á innra skipulagi sviða. Markmiðið með þessum breytingum er að færa ábyrgð og ákvörðunarvald til stjórnenda klínískrar þjónustu í framlínu og samhæfa betur grundvallarþætti starfseminnar. Takmarkið er sterkari liðsheild, skilvirkari þjónusta og öflugri akademísk starfsemi.
Uppbygging nýs Landspítala við Hringbraut stendur yfir og hafa mikilvægir áfangar náðst í uppsteypu meðferðarkjarnans. Þá eru framkvæmdir við rannsóknarhúsið hafnar. Aðkoma stjórnenda og starfsfólks Landspítala að verkefninu mun aukast jafnt og þétt á komandi misserum. Það eru því sannarlega spennandi tímar framundan.
Ég vona að þið hafið öll notið þess að verja tímum með ástvinum um hátíðirnar og óska ykkur farsældar á nýju ári með þökk fyrir vel unnin störf í þágu þjóðarinnar allrar.
Gleðilegt ár!
Runólfur Pálsson