Lyfjalisti Landspítala hefur verið birtur á ytri vef Landspítala - www.landspitali.is og er þar öllum aðgengilegur. Hann mun einkum nýtast heilbrigðisstofnunum og sérgreinalæknum sem ávísa leyfisskyldum lyfjum.
Með nýjum lyfjalögum nr. 100/2020 var Landspítala falið að útbúa og hafa umsjón með lyfjalista fyrir opinberar heilbrigðisstofnanir. Lyfjalistinn er gagnlegur út frá faglegu sjónarmiði og hagkvæmni með tilliti til kostnaðar.
Lyfjafræðingar í lyfjaþjónustu Landspítala unnu að því að setja lyfjalistann saman og gera hann opinberan, í samstarfi við lyfjanefnd Landspítala, heilbrigðis- og upplýsingatæknideild og sérgreinalækna.
Í kjölfar þessa verður verður lyfjalistinn samþættur lyfjafyrirmælakerfinu Therapy. Læknar geta þá séð strax hvaða lyf eru í fyrsta vali samkvæmt lyfjalista.
Lyfjalistinn er uppfærður eftir þörfum, birgðastöðu og hagkvæmasta vali hverju sinni.
Hér eru tilgreindar nokkrar leiðir til að finna lyfjalistann á vefnum.
- Hlekkur á lyfjalistann er á vefsíðu lyfjanefndar Landspítala undir hlekknum Fagfólk / Spítalinn í heilbrigðiskerfinu.
- Einföld leið að lyfjalistanum er að smella á „Deildir og þjónusta: Leit A - Ö“ á forsíðu ytri vefsins og skrifa „lyfjalisti“ eða „lyfjanefnd“ í leitarreitinn.
- Lyfjalistinn er undir „Beint að efninu“ á forsíðu vefs Landspítala.
- Bein slóð á lyfjalistann: https://lyfjalisti.landspitali.is/