Ónæmisfræðideild Landspítala hlaut 7. mars 2023 í tengslum við göngudeild astma- og ofnæmissjúkdóma viðurkenningu alþjóðlegu samtakanna World Allergy Organization sem „Center of Excellence“.
Í byrjun desember á síðasta ári sendi þáverandi yfirlæknir ónæmisfræðideildar, Björn Rúnar Lúðvíksson prófessor, inn umsókn til samtakanna fyrir hönd deildarinnar. Að umsókninni komu allir stjórnendur og sérfræðingar deildanna í umsjón Kristjáns Erlendssonar sérfræðilæknis.
Megintilgangur WAO Centers of Excellence er að stuðla að og styrkja alþjóðleg þverfagleg vinnubrögð við framþróun vísindastarfs, nýsköpun, menntun og miðlun þekkingar.
Til að hljóta viðurkenningu samtakanna þarf að uppfylla ákveðnar gæðakröfur er varða umfang og gæði klínískrar þjónustu, sérfræðiþekkingu starfsmanna auk framlags til þróunar-, vísinda-, kennslu og leiðbeiningarstarfa.
Viðurkenningin mun auka sýnileika og möguleika deildarinnar til virkrar alþjóðlegrar þátttöku á mörgum sviðum. Þannig eykur viðurkenningin möguleika deildarinnar til alþjóðlegs samstarfs í vísindum og sérfræðimenntun. Auk þess fá þeir sem viðurkenninguna bera aukinn stuðning WAO við áframhaldandi framþróun klínískrar þjónustu, vísindastarfs og kennslu.