Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra skoðaði aðstöðuna á dag- og göngudeild blóð- og krabbameinslækninga í heimsókn sinni þangað 15. mars 2023.
Eins og nafnið sýnir er dag- og göngudeild blóð- og krabbameinslækninga 11BC fyrir sjúklinga með blóðsjúkdóma og krabbamein og staðsett á jarðhæðinni á gamla spítalanum við Hringbraut. Þangað kemur mikill fjöldi fólks á hverjum degi til meðferðar svo sem í krabbameinslyfjagjöf. Jafnan er þröng á þingi og húsnæðið fyrir löngu orðið alltof lítið miðað við umfang starfseminnar, bæði fyrir sjúklinga og starfsmenn. Þetta slæma ástand hefur oft ratað í fréttirnar.
Starfsemi dag- og göngudeildar blóð- og krabbameinslækninga er ekki ætlaður staður í nýja meðferðarkjarnanum sem er í byggingu við Hringbraut þannig að húsnæðisvandi deildarinnar leysist ekki með honum. Ekki er talið forsvaranlegt að bíða mikið með að leysa þennan húsnæðisvanda því fyrir liggi að nýgreiningum krabbameina muni fjölga umtalsvert á næstu árum.
Heilbrigðisráðherra fræddist um allt þetta af stjórnendum og starfsmönnum Landspítala og skoðaði jafnframt teikningar af mögulegri bráðabirgðalausn á húsnæðisvanda deildarinnar sem yrði í formi léttrar viðbyggingar við gamla spítalann. (W-álma svonefnd).