Læknar í sérnámsgrunni á Landspítala tilnefndu 44 lækna og 16 deildir/teymi þegar þeir svöruðu vefkönnun um besta kennarann og bestu námsdeildina fyrir lækna í sérnámsgrunni árið 2022.
Viðurkenningar voru afhentar þann 22. mars 2023. Finna Pálmadóttir, Jón Kolbeinn Guðmundsson, Ragnar Pétursson og Stefanía Katrín J. Finnsdóttir, sem ljúka sérnámsgrunni á þessu ári, afhentu viðurkenningar ásamt Ingu Sif Ólafsdóttur yfirlækni sérnámsgrunnslækna.
Bryndís Sigurðardóttir, sérfræðilæknir í smitsjúkdómalækningum, hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi klíníska kennslu í starfi á Landspítala.
Bráðamóttaka Landspítala Fossvogi hlaut viðurkenningu fyrir að skara fram úr í kennslu sérnámsgrunnslækna og tók Hjalti Már Björnsson á móti þeirri viðurkenningu.
Af öðrum læknum sem tilnefndir voru má nefna Agnar Bjarnason, sérfræðilækni í smitsjúkdómalækningum, Benedikt Kristjánsson, sérfræðilækni í bráðalækningum, og Berglindi Gerðu Libungan, sérfræðilækni í hjartalækningum. Deildir sem mætti nefna eru smitsjúkdómadeild A7, hjartadeild 14EG, Barnaspítali Hringsins, háls-, nef og eyrnalækningadeild A3 og myndgreining.
Mynd: Jón Kolbeinn Guðmundsson, Finna Pálmadóttir, Hjalti Már Björnsson, Bryndís Sigurðardóttir, Ragnar Pétursson, Stefanía Katrín J. Finnsdóttir og Inga Sif Ólafsdóttir.