Rétt 50 ár eru í dag, 26. apríl 2023, síðan Grensásdeild tók til starfa en þar hefur í hálfa öld verið mikilvægt endurhæfingarstarf fyrir fólk sem hefur hlotið alvarlega færniskerðingu.
Grensásdeild var opnuð sem endurhæfingardeild Borgarspítalans 26. apríl 1973 þegar fyrsti sjúklingurinn kom þangað. Deildinni tilheyrði þá legudeild á Heilsuverndarstöðinni. Grensásdeild varð síðan hluti af Sjúkrahúsi Reykjavíkur þegar það var stofnað árið 1996 við sameiningu Borgarspítalans og St. Jósefsspítala Landakoti. Sama ár var 30 rúma hjúkrunar- og endurhæfingardeildinni á Heilsuverndarstöðinni lokað. Grensásdeild varð svo hluti af Landspítala - háskólasjúkrahúsi við stofnun þess árið 2000, sem er nú er Landspítali.
Fyrir fólk með færniskerðingu
Grensásdeild er fyrir fólk sem með alvarlega færniskerðingu svo sem eftir heilaskaða og heilablóðföll, mænuskaða, missi útlims og fjöláverka, langvinna taugasjúkdóma, langa gjörgæslumeðferð, krabbamein og alvarlegar sýkingar.
Á Grensásdeild vinna sérfræðingar í teymum að bataferli skjólstæðinganna; læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, iðjuþjálfar, sjúkraþjálfarar, talmeinafræðingar, sálfræðingar og félagsráðgjafar. Markmiðið er að bæta andlega, líkamlega og félagslega færni. Um fjórðungur af þeim 400 til 500 sem útskrifast af Grensásdeild árlega hverfa til starfa sinna á ný.
Á hverjum tíma eru 25 manns inniliggjandi á Grensásdeild, tæplega 200 á ári, og er meðaldvalartími um 40 dagar. Á dagdeild eru um 40 sjúklingar hverju sinni og rúmlega 5000 komur á ári. Á göngudeild eru tæplega 700 komur á ári. Í sjúkraþjálfun eru um 20 þúsund meðferðir á ári, í iðjuþjálfun um 7000 og um 4000 í talþjálfun.
Húsnæði og hollvinir
Það húsnæði sem Grensásdeild hefur verið í var upphaflega reist sem hjúkrunarheimili fyrir aldraða og því ekki hannað sérstaklega til endurhæfingar. Í fimmtíu ár hefur ekkert verið byggt fyrir utan veglega þjálfunarlaug sem var tekin í notkun árið 1985 og hefur reynst ákaflega vel.
Það hefur lengi verið barist fyrir stækkun húsnæðis Grensásdeildar og þar hafa verið fremst í flokki samtökin Hollvinir Grensásdeildar. Tilgangur þeirra er að styðja við, efla og styrkja endurhæfingarstarfsemi Grensásdeildar. Frumkvæði að stofnun samtakanna átti Gunnar Finnsson rekstrarhagfræðingur sem stóran hluta ævi sinnar glímdi við afleiðingar lömunarveiki sem hann fékk barn að aldri. Hann var formaður Hollvina Grensásdeildar allt frá stofnun samtakanna árið 2006 til dauðadags 31. ágúst 2014. Núverandi formaður er Guðrún Pétursdóttir sem einnig hefur verið ötull leiðtogi í baráttunni fyrir uppbyggingu Grensásdeildar.
Edda Heiðrún Backman leikkona (1957-2016) var mikill eldhugi og dugnaðarforkur þrátt fyrir lömun sína og lét mjög til sín taka í stuðningi við Grensásdeild en þar naut hún um allangt skeið þjálfunar og umönnunar. Hún stóð meðal annars í nafni Hollvinasamtakanna fyrir margrómuðu fjáröflunarátaki sem kallaðist „Á rás fyrir Grensás“ sem var í Sjónvarpinu haustið 2009. Þar söfnuðust 110 milljónir króna.
Nýbygging rís
Vatnaskil urðu í baráttusögu húsnæðisumbóta Grensásdeildar við ákvörðun stjórnvalda árið 2020 um að stækka endurhæfingardeildina. Þann 25. ágúst 2022 var svo undirritaður samningur um fullnaðarhönnun nýbyggingar við Grensásdeild.
Á 50 ára afmæli er því fagnað að nú liggur fyrir að um 3.900 fermetra viðbygging Grensásdeildar rís á vegum Nýs Landspítala ohf. og stefnt er að því að taka hana í notkun árið 2027. Eldra húsnæði deildarinnar verður síðan endurbætt.