Sædís Sævarsdóttir, prófessor og varadeildarforseti læknadeildar Háskóla Íslands, gigtarlæknir á Landspítala og vísindamaður hjá Íslenskri erfðagreiningu, hlaut verðlaun úr Verðlaunasjóði Árna Kristinssonar og Þórðar Harðarson í læknisfræði og skyldum greinum sem afhent voru á Vísindum á vordögum 26. apríl 2023.
Verðlaunasjóðinn stofnuðu Árni Kristinsson og Þórður Harðarson árið 1983 en þeir eru heiðursprófessorar við Háskóla Íslands og fyrrverandi yfirlæknar við Landspítala. Tilgangur sjóðsins er að efla og kynna vísindastarfsemi í heilbrigðisvísindum. Verðlaunin nema nú sjö milljónum króna og eru einhver stærstu verðlaun sem veitt eru fyrir vísindastörf hér á landi. Þetta er í ellefta sinn sem úthlutað er úr sjóðnum og var valið úr 11 tilnefningum.
Sædís Sævarsdóttir lauk embættisprófi í læknisfræði 2001 og doktorsprófi í ónæmisfræði 2005 við læknadeild HÍ. Hún lauk sérnámi í lyf- og gigtarlækningum við gigtardeild Karolinska háskólasjúkrahússins í Stokkhólmi 2012 og var yfirlæknir þar 2014-2017 en flutti aftur til Íslands 2018. Hún stundaði rannsóknir samhliða við Karolinska Institutet (KI) þar sem hún varð dósent í gigtarlækningum 2016 og sat í stjórn sænska gigtargæðagagnagrunnsins.
Sædís er í stjórn íslensku og skandinavísku gigtlæknasamtakanna og situr fyrir hönd Íslands í NOS-M, samráðsnefnd norrænu rannsóknasjóðanna. Sædís leiðir netnámskeið í sniðlækningum (personalised medicine) sem er öllum opið á Coursera en var þróað fyrir læknanema og er þetta fyrsta námsefnið sem læknadeildir á Norðurlöndum þróa saman enda er framþróun í sniðlækningum hröð.
Sædís hefur leiðbeint 9 doktorsnemum og birt 96 ritrýndar vísindagreinar, þar af um fjórðung sem leiðandi höfundur, flestar í virtum vísindaritum innan gigtarlækninga og erfðafræði (samanlagður impact factor um 1200). Flestar rannsóknir hennar og samstarfsfólks hafa beinst að því að finna áhættuþætti og forspárþætti fyrir meðferðarsvörun og horfum í algengasta liðbólgusjúkdómnum, iktsýki (rheumatoid arthritis), öðrum gigtar- og sjálfsónæmissjúkdómum. Hún hefur meðal annars sýnt fram á mikilvægi heilbrigðra lífshátta í iktsýki, bæði hreyfingar, kjörþyngdar og reyklauss lífsstíls. Sú grein sem hefur flestar tilvitnanir fjallar um að reykingar helminguðu líkur á meðferðarsvörun á bæði fyrstu hefðbundnu meðferð og líftæknilyfjameðferð en þeir sem höfðu hætt að reykja svöruðu lyfjameðferð jafn vel og þeir sem aldrei höfðu reykt.
Ásamt teymi vísindafólks hjá Íslenskri erfðagreiningu og víðar birti Sædís nýlega stærstu erfðarannsóknir sem gerðar hafa verið á iktsýki annars vegar og sjálfsónæmi í skjaldkirtli (autoimmune thyroid disease, AITD) hins vegar. Sú síðarnefnda birtist í Nature tímaritinu. AITD hrjáir um 5% fullorðinna og lýsir sér oftast sem van- eða ofvirkur skjaldkirtill. Í báðum rannsóknum fannst fjöldi erfðabreytileika sem ekki höfðu áður verið tengdir við þessa sjúkdóma og eru sumir tengdir mikilli áhættuaukningu. Niðurstöðurnar auka skilning á meinferli þessara sjúkdóma og með svonefndri multiomics nálgun, þar sem áhrif erfðabreytileika á tjáningu gena, kóðun próteina og magn þeirra í plasma eru skoðuð, er hægt að finna hvaða áhættugen tjá prótein sem eru vænleg skotmörk lyfja.