Frá og með 10. maí 2023 mun sýkla- og veirufræðideild Landspítali, í stað hefðbundinnar ræktunar, taka upp kjarnsýrumögnun (PCR) beint á saursýnum til leitar að iðrasýkingavöldum.
Leitað verður að Salmonella, Campylobacter, Shigella/EIEC, STEC, Yersinia, Vibrio, Giardia, Cryptosporidium og Entamoeba histolytica í öllum sýnum.
Rannsóknin verður gerð alla virka daga. Niðurstöður munu liggja fyrir samdægurs (ef sýnið berst fyrir kl. 11:00) eða næsta virka dag. Öll sýni, sem reynast jákvæð í PCR rannsókninni munu í framhaldinu fara í hefðbundna rannsókn (ræktun, nánari greiningu og næmispróf).
Ef óskað er eftir ítarlegri sníkjudýraleit en þeirri sem felst í PCR rannsókninni (þ.e. öðrum sníkjudýrum en Giardia, Cryptosporidiuog Entamoeba histolytica) þarf að biðja um það sérstaklega.
Vegna annars vegar ófullnægjandi næmis PCR rannsóknarinnar við greiningu Salmonella beint í sýnum sem innihalda mjög lítið magn af bakteríunni og hins vegar þeirrar staðreyndar að PCR prófið greinir erfðaefni baktería, óháð því hvort þær séu lifandi eða dauðar, er í vissum tilvikum nauðsynlegt að styðjast við ræktun. Þetta á t.d. við um eftirfylgd iðrasýkinga vegna smithættu af völdum baktería hjá vissum einstaklingum, svo sem þeim sem starfa við matvælaframleiðslu, eða aðhlynningu viðkvæmra hópa.
Pöntunarmynd sýkla- og veirufræðideildar fyrir saurrannsóknir í CyberLab mun verða aðlöguð þessum breytingum frá og með 10. maí 2023.