Alþjóðlegur dagur hjúkrunarfræðinga er í dag, 12. maí, og er því fagnað hér á landi og um heim allan. Þema dagsins er hjúkrun og framtíðin.
Þann 12. maí 1820 fæddist Florence Nightingale sem þekkt varð sem „konan með lampann“. Það viðurnefni kom til af því að hún varð kunn fyrir að ganga á milli særðra hermanna í Krímstríðinu 1853 til 1856 og hjúkra þeim. Nightingale vann sér auk þess hylli fyrir ritstörf um hjúkrun, kvenréttindabaráttu sína og afburða hæfileika í tölfræði og stærðfræði. Verk hennar höfðu þannig mikil áhrif á það hvernig hjúkrun þróaðist.
Hjúkrunarfræðingar á Landspítala hafa lengi haldið upp á alþjóðlegan dag sinn með viðburðum um þetta leyti undir heitinu „vika hjúkrunar“ svo sem veggspjaldasýningum, ráðstefnum og samveru. Nýlegur fyrirlestur Elísabetar Herdísar Brynjarsdóttur um heilbrigði jarðar og hjúkrun framtíðar tengdist þessu viðburðahaldi hjúkrunarfræðinga.
Alþjóðasamtök hjúkrunarfræðinga (ICN) beina athyglinni að framtíð stéttarinnar í tilefni alþjóðlega dagsins 2023, hverjar þarfir eru og hvernig sé hægt að mæta þeim. Þema ársins er „our nurses – our future“. Ólafur G. Skúlason, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítala, vill þýða það sem „Hjúkrunarfræðingar – framtíðin er okkar“ og skrifar eftirfarandi í tilefni dagsins: „Hjúkrunarfræðingar gegna lykilhlutverki í heilbrigðiskerfinu og án þeirra mun það ekki virka. Ef við hugsum til framtíðar þá eru áskoranirnar margar og flóknar en hjúkrunarfræðingar eru vel í stakk búnir til að takast á við þær áskoranir. Ég er gríðarlega stoltur af því að vera hjúkrunarfræðingur og trúi því innilega að framtíðin sé okkar, saman náum við árangri fyrir sjúklingana okkar, þjóðina og heiminn allan. Áfram hjúkrunarfræðingar!“
Framkvæmdastjórn Landspítala sendir kveðjur til hjúkrunarfræðinga í tilefni dagsins.
Leit
Loka