Tveir lyfjafræðinemar, Guðný Björk Proppé og Rut Matthíasdóttir, hafa veturinn 2022 til 2023 unnið að rannsóknarverkefnum tengt óráði.
Óráð er ástand sem einkennist af bráðum ruglingi af margvíslegum orsökum og getur haft alvarlegar heilsufarslegar afleiðingar til skemmri og lengri tíma fyrir fólk. Ýmis lyf eru talin geta valdið óráði.
Rannsóknir lyfjafræðinemanna hafa verið samstarfsverkefni Landspítala, Háskóla Íslands og University of Innsbruck undir handleiðslu Anitu Weidmann, Freyju Jónsdóttur og Péturs S. Gunnarssonar.
Markmið með rannsóknunum var að setja saman leiðbeiningar um lyf sem geta stuðlað að óráði og möguleg meðferðarúræði til að styðja við klínískt starf. Sérstök áhersla var lögð á sjúklinga með heilabilun. Niðurstöðurnar munu m.a. nýtast til að styðja við þverfaglega vinnu í að rýna lyfjameðferð hjá sjúklingum sem eru í áhættu á óráði.