Á þriggja daga hermiþjálfunarnámskeiði sem haldið var í hermisetri Landspítala í Skaftahlíð síðla vetrar 2023 voru svæfingalæknar og svæfingahjúkrunarfræðingar þjálfaðir í því að fást við ítrustu bráðaaðstæður í svæfingalækningum þar sem fumlaust viðbragð getur bjargað sjúklingi á ögurstundu. Fagfólk í svæfingu hefur verið í fararbroddi í þróun hermiþjálfunar innan læknisfræðinnar hér á landi.
Hermiþjálfunarnámskeiðið var eitt hið umfangsmesta, ef ekki það stærsta, sem haldið hefur verið á Íslandi. Námskeiðið var flutt til Íslands fyrir tilstilli hóps íslenskra svæfinga- og gjörgæslulækna og svæfingahjúkrunarfræðinga í samstarfi við Landspítala. TAASK er gagnreynt og vinsælt námskeið í Svíþjóð sem haldið hefur verið í rúman áratug og fjöldi fólks lokið. Fyrir námskeiðið er lesin bók og þreytt próf en megináhersla á námskeiðinu sjálfu er á hermiþjálfun.
Þátttakendur voru sérfræðilæknar og sérnámslæknar í svæfinga- og gjörgæslulækningum frá Íslandi, Noregi og Svíþjóð og svæfingahjúkrunarfræðingar frá Íslandi.
Helstu markmið með námskeiðinu:
- Læknisfræðileg leiðtogafærni
- Að biðja um hjálp á réttum tíma og útdeila verkefnum
- Skilgreina og styðja hlutverk leiðtoga
- Skilgreina skýr hlutverk annarra teymismeðlima
- Skilvirk samskipti
- Sameiginleg sýn á aðstæður
- Skilvirk og góð ákvarðanataka
Í heilbrigðisþjónustu er hermiþjálfun stöðugt meira notuð til kennslu og þjálfunar enda mjög gagnleg sem slík:
- Gagnleg til að auka öryggi sjúklinga
- Hentar sérlega vel til að þjálfa viðbrögð við sjaldgæfum og hættulegum uppákomum
- Nýtist bæði til þjálfunar verðandi og núverandi fagfólks