Málþing til heiðurs Steini Jónssyni lungnalækni verður haldið í Blásölum E7 í Fossvogi föstudaginn 26. maí 2023 í tilefni af starfslokum hans á Landspítala.
Steinn lauk læknaprófi frá Háskóla Íslands árið 1977, sérfræðiprófi í lyflækningum árið 1982 og sérfræðiprófi í lungnasjúkdómum og gjörgæslu frá Baylor College of Medicine árið 1984. Hann varð lektor í lyflæknisfræði við Háskóla Íslands árið 1989, dósent árið 1991 og prófessor árið 1999. Steinn hefur verið leiðandi á sviði framhaldsnáms ungra lækna og stýrði uppbyggingu á framhaldsnámi í almennum lyflækningum á Landspítala á árunum 2000-2011. Steinn hefur sinnt lungnalækningum frá heimkonu en einnig stundað rannsóknir á lungnakrabbameini, sinnt kennslu við læknadeild Háskóla Íslands og leiðbeint fjölda nema.