Nýjar byggingar Landspítala við Hringbraut eru farnar að taka á sig mynd og setja sinn svip á höfuðborgina. Framkvæmdastjórn Landspítala var þar um miðjan maí til að kynna sér stöðu framkvæmdanna.
„Maímánuður hefur verið hagstæður í uppsteypu meðferðarkjarna“ er fyrirsögn fréttar á vef Nýs Landspítala ohf. sem stendur fyrir framkvæmdunum við Hringbraut. Nýi meðferðarkjarninn, sem svo hefur verið nefndur, er sú bygging þar sem lengst er komin upp úr jörðinni. Senn fara fleiri byggingar í Hringbrautarverkefninu að sjást svo sem bílastæða- og tæknihús.
Spítalabyggingarnar við Hringbraut verða hið innra og ytra hinar glæsilegustu þótt mestu skipti samt hverju þær eiga eftir að breyta til góðs í þjónustu við landsmenn og það fólk sem þar á eftir að starfa.
Sóleyjartorg verður miðja spítalasvæðisins og þar verður komið fyrir listaverki. Nýr Landspítali ohf. býður myndlistarmönnum að taka þátt í lokaðri samkeppni um það listaverk.
Framkvæmdastjórn Landspítala kynnti sér framkvæmdirnar við Hringbraut í heimsókn þangað 17. maí 2023 og þá tók Þorkell Þorkelsson ljósmyndari meðfylgjandi myndir.
Skylt efni: