Á Landspítala hefur verið komið upp 356 aðgangsstýrðum hjólastæðum fyrir starfsfólk. Því til viðbótar eru 314 öryggir hjólabogar við byggingar spítalans.
Undanfarin ár hefur markvisst verið unnið að því að gera reiðhjól að raunverulegum valkosti fyrir starfsfólk Landspítala til að ferðast í og úr vinnu eða á annan hátt sem mest vistvænt. Meðal þess sem gert hefur verið er að bjóða starfsmönnum að gera samgöngusamning þar sem fólk skuldbindur sig til að ferðast til og frá vinnu 40 eða 80 prósent gangandi, hjólandi eða með strætó. Margir nýta sér samgöngustyrk sem í honum felst en hann getur gefið starfsmönnum allt að 5 þúsund króna skattfrjálsa aukagreiðslu á mánuði.
Til þess að reiðhjól gagnist starfsfólki Landspítala sem best sem samgöngutæki hefur sýnt sig að mikilvægt er að geta geymt þau á öruggum stað á vinnutímanum. Því hefur verið mætt með því að reisa hjólageymslur og hjólaskýli. Nú eru komnir 10 slíkir vörslustaðir reiðhjóla á Landspítala samkvæmt mótaðri stefnu um hlutfall hjólastæða út frá fjölda starfsmanna og nemenda. Núna er þetta hlutfall um 25% en stefnt að því að það verði 40% árið 2030. Það er því margra nýrra hjólastæða að vænta á næstu árum.
Hér fyrir neðan er yfirlit aðgangsstýrðra hjólastæða á Landspítala snemmsumars árið 2023. „Aðgangsstýring“ þýðir að notað er starfsmannakort spítalans til að opna og loka skýlunum. Í svigum eru tölur um fjölda starfsmanna og nemenda á hverjum stað á venjulegum virkum degi, samkvæmt innskráningum.
- Hringbraut (1765) – v/starfsmannainngang, v/Eirberg/geðdeild, v/sjúkrahótel – 164 hjól
- Fossvogur (875) – v/starfsmannainngang – 58 hjól
- Skaftahlíð (280) – 68 hjól
- Landakot (186) – 10 hjól
- Eiríksstaðir (68) – 20 hjól
- Kleppur (76) – 14 hjól
- Líknardeild og Rjóður (26) – 12 hjól
- Ármúli (33) – 10 hjól
Nýjasta aðgangsstýrða hjólastæðið á Landspítala er milli Eiríksstaða og geðdeildahúss á Landspítala Hringbraut. Í tilefni af opnum þess vorið 2023 var rætt við Huldu Steingrímsdóttur umhverfisstjóra Landspítala sem hefur stýrt uppbyggingu aðgangsstýrðu hjólastæðanna á spítalanum.