Landspítali boðar til málþings um stöðu og framtíðarhorfur í heilbrigðisþjónustu. Sérstök áhersla verður lögð á hlutverk stórra sjúkrahúsa sem jafnframt eru kjölfesta heilbrigðisþjónustunnar, líkt og á við um Landspítala, og samvinnu þeirra við þjónustuaðila úti í samfélaginu. Yfirskrift málþingins er „Skýr heilbrigðisstefna, grýtt leið?“
Málþingið verður 3. október 2023 í Veröld, húsi Vigdísar kl. 14:00 til 16:30. Það verður opið og ætlað öllum þeim sem áhuga hafa á stefnumótun í heilbrigðismálum og málefnum Landspítala. Málþingið fer fram á ensku og íslensku. Nánari dagskrá verður auglýst síðar.
Lykilfyrirlesari er Nigel Edwards, gestaprófessor við London School of Hygiene and Tropical Medicine og fráfarandi framkvæmdastjóri The Nuffield Trust, breskrar hugveitu á sviði heilbrigðisþjónustu. Edwards hefur áratuga reynslu af stjórnunarstörfum, rannsóknum og stefnumótun innan heilbrigðisþjónustu og ríka þekkingu á heilbrigðiskerfum ólíkra landa. Hann starfar sem ráðgjafi fyrir Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina og hefur verið fulltrúi Bretlands í European Observatory on Health Systems and Policies, samtaka sem safna og miðla þekkingu um heilbrigðiskerfi og stefnumótun ólíkra Evrópuríkja.
Nánari lýsing: Í heilbrigðisstefnu stjórnvalda til ársins 2030 er sett fram skýr framtíðarsýn um áframhaldandi uppbyggingu heilbrigðisþjónustu á heimsmælikvarða. Jafnframt kemur fram að veita þurfi rétta þjónustu og á réttu þjónustustigi, tryggja mönnun og fjármögnun heilbrigðisþjónustunnar og hafa gæði og öryggi í fyrirrúmi. Landspítali fer með víðfeðmt hlutverk í þessari framtíðarsýn en stendur jafnframt frammi fyrir ýmsum áskorunum í starfsemi sinni og á þeirri vegferð sem framundan er. Markmiðið með málþinginu er að greina áskoranir og framtíðarhorfur með sérstakri áherslu á starfsemi og þjónustu stórra sjúkrahúsa, sem jafnframt eru kjölfesta heilbrigðisþjónustunnar, og með hliðsjón af hlutverkum annarra þjónustuveitenda. Fjallað verður um sameiginlegan vanda heilbrigðiskerfa ólíkra Evrópulanda og leiðir úr honum, ásamt því að skoða hvað greinir heilbrigðiskerfin að, meðal annars með tilliti til fólksfjölda, samsetningar íbúa og staðsetningar. Leitast verður við að greina og meta lausnir á þeim viðfangsefnum sem blasa við í bæði stefnumótun og rekstri.