Adeline Tracz, verkfræðingur við stafræna þróun á Landspítala, er tilnefnd til norrænna verðlauna fyrir konur sem þykja skara framúr í tæknigeiranum. Adeline er tilnefnd til verðlauna fyrir forystuhlutverk í stafrænni þróun („Digital leader of the Year“) ásamt fjórum öðrum konum frá Norðurlöndunum. Í því sambandi er litið þess sýnilega árangurs sem konurnar hafi náð í stafrænni nýsköpun á undangengnum tveimur árum.
Fyrir þessum norrænu verðlaunum stendur félagsskapurinn WonderCoders sem hefur að markmiði að hvetja og styðja konur til þess að sækja fram og láta til sín taka í tæknigeiranum. Verðlaunin eru veitt árlega og að þessu sinni valdi dómnefnd úr um 400 tilnefningum í öllum flokkum sem verðlaunað er fyrir. Úrslitin verða kynnt í Hörpu 9. nóvember 2023.
Adeline Tracz hefur unnið á heilbrigðis- og upplýsingatæknideild Landspítala í 14 ár, fyrst sem verktaki og forritari, síðan var hún ráðin sem verkefnastjóri og teymisstjóri. Hún hefur verið í lykilhlutverki í margs konar þróunarverkefnum og leiðir núna þróun Heilsugáttar. Adeline hefur að undanförnu stýrt þróun Landspítalaappsins sem vex stöðugt sem mikilvægt tól fyrir sjúklinga á spítalanum og aðstandendur.