Fyrsta skóflustunga að nýrri viðbyggingu við Grensásdeild Landspítala var tekin við hátíðlega athöfn 5. október 2023. Stefnt að því að nýbygging verði tekin í notkun 2027.
Heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson, tók fyrstu skóflustunguna að nýrri viðbyggingu við Grensásdeild. Auk ráðherra tóku skóflustunguna Runólfur Pálsson forstjóri Landspítala, Svava Magnúsdóttir, fulltrúi Hollvina Grensásdeildar, Arnar Helgi Lárusson formaður SEM samtakanna svo og starfsmenn Grensásdeildar, þær Guðbjörg Efemía Magnúsdóttir og Eiríksína Kr. Hafsteinsdóttir.
Grensásdeild er endurhæfingardeild Landspítala en þangað koma sjúklingar til endurhæfingar eftir að hafa lokið meðferð á öðrum deildum spítalans. Algengast er að sjúklingar komi í sérhæfða sjúkra- og iðjuþjálfun, talþjálfun eða viðtöl og meðferð hjá fjölmörgum sérfræðingum í endurhæfingu og þjálfun.
- Núverandi húsnæði Grensásdeildar er komið til ára sinna og styður ekki við nýjustu þekkingu og þróun hjálpartækja og búnaðar í endurhæfingu mænuskaðaðra og mikið slasaðra. Í mörg ár hefur verið barist fyrir því að húsnæðið yrði stækkað til að takast á við fjölbreytt og mjög krefjandi verkefni. Margir hafa lagt lið í þeirri baráttu og enn er stutt við Grensásdeild. Í Sjónvarpinu verður föstudaginn 6. október söfnunar- og skemmtiþáttur til styrktar Grensásdeild í beinni útsendingu.
- Nýbyggingin verður um 4.400 fermetrar að stærð og sérsniðin fyrir þjálfunarstarfsemi Grensásdeildar. Þar verður ný legudeild en einnig nýr matsalur og ýmis önnur samverurými ásamt tilheyrandi stoðrýmum. Áhersla verður á þarfir sjúklingsins til endurhæfingar og uppbyggingar en einnig á velferð starfsfólks, aðgengi fyrir alla og góða hljóðvist, ljósvist og innivist. Arkitektar eru Nordic Office Architecture og um verkfræðihönnun sér EFLA, verkfræðistofa.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra: ,,Ég er viss um að þessi langþráða viðbót við Grensásdeildina eigi eftir að reynast starfseminni vel. Í allri heildaruppbyggingu Landspítala er nauðsynlegt að halda því til haga að það er verið að fjárfesta í steypu, veggjum og öðrum innviðum til þess eins að skapa góðar aðstæður fyrir fólkið innan veggjanna. Við erum því fyrst og fremst að fjárfesta í fólki og byggja undir áframhaldandi öfluga heilbrigðisþjónustu.“
Runólfur Pálsson forstjóri Landspítala: „Þörfin fyrir sérhæfða endurhæfingarþjónustu hefur aukist í takt við fjölgun íbúa. Það er öllum ljóst sem til þekkja að húsnæði Grensásdeildar, sem lítið hefur verið endurnýjað frá því deildin var opnuð fyrir 50 árum, mætir engan veginn kröfum samtímans. Því er sérlega ánægjulegt að loks hilli undir að reist verði viðbygging sem mun valda straumhvörfum því hún verður sérsniðin fyrir nýtingu á nýjustu þekkingu og tækni á sviði sérhæfðs þjálfunarbúnaðar og hjálpartækja í endurhæfingarmeðferð en mikil framþróun á því sviði hefur átt sér stað á undanförnum árum. Það kostar mikla fjármuni að koma upp sérhæfðum þjálfunarbúnaði. Við á Landspítala erum því afar þakklát fyrir söfnunarátak Hollvina Grensáss og vonum að landsmenn sýni okkur stuðning.“
Gunnar Svavarsson, framkvæmdastjóri Nýs Landspítala ohf.: „Verkefnið við Grensás er eitt af fjölmörgum sem Nýr Landspítali ohf. sinnir og það fyrsta sem félagið sinnir utan framkvæmdagirðingarinnar við Hringbraut. Nú, þegar hönnun er langt komin og jarðvinna er að hefjast þá tekst NLSH á við nýjar áskoranir að byggja í þegar byggðu hverfi. Umhverfis- og öryggismálin eru alltaf í öndvegi hjá félaginu og munu verða það í þessu verkefni líka. Markmiðið er að verklegar framkvæmdir séu unnar í sátt við allt og alla.“
Grensásdeild 50 ára 26. apríl 2023