Engar töfralausnir eru á viðfangsefnum heilbrigðiskerfisins en miklu skiptir að þróa leiðir til að hrinda heilbrigðisstefnu fyrir Ísland í framkvæmd. Þetta kom fram á málþingi um stöðu Landspítala og framtíðarhorfur í heilbrigðisþjónustu sem haldið var í Veröld – húsi Vigdísar þann 3. október 2023.
Á málþinginu kom fram að íslenskt heilbrigðiskerfi stendur frammi fyrir sambærilegum áskorunum og heilbrigðiskerfi annarra Evrópulanda en þær felast meðal annars í breyttri íbúasamsetningu og hækkuðum meðalaldri. Alls staðar eru bundnar vonir við að stafræn tækni létti undir með störfum á spítala en jafnframt ljóst að slík tækni kallar á umtalsverða fjárfestingu og vandaða innleiðingu. Sérstaða Íslands felst þó meðal annars í því að vera eyja, fjarri öðrum heilbrigðiskerfum, og því þarf Landspítali að geta boðið upp á mikla sérhæfða þjónustu. Jafnframt eiga lýðfræðilegar breytingar sér stað í meira mæli hér en annars staðar á Norðurlöndum, meðal annars með innflutningi fólks og stærri kynslóðum sem nú nálgast efri ár.
Á málþinginu kom einnig fram að á sama tíma og menntun heilbrigðisstarfsfólks hefur orðið sérhæfðari hafa þarfir sjúklinga orðið almennari. Sífellt fleira fólk þarf á þverfaglegri þjónustu að halda til lengri tíma og það ætti að vera markmiðið að efla heilbrigðiskerfið til að takast á við það. Í íslensku samhengi er mikilvægt að treysta heilsugæsluna enn frekar og tryggja yfirsýn og ábyrgð stjórnvalda á því hvaða þjónusta er keypt af sérgreinalæknum og öðrum einkaaðilum.
Lykilfyrirlesari á málþinginu var Nigel Edwards, ráðgjafi hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni og fráfarandi framkvæmdastjóri The Nuffield Trust, breskrar hugveitu á sviði heilbrigðisþjónustu. Edwards hefur áratuga reynslu af stjórnunarstörfum, rannsóknum og stefnumótun innan heilbrigðisþjónustu og ríka þekkingu á heilbrigðiskerfum ólíkra landa. Sigríður Gunnarsdóttir, prófessor við hjúkrunarfræði- og ljósmóðurdeild Háskóla Íslands og fyrrverandi framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítala, og Davíð O. Arnar, yfirlæknir hjartalækninga á Landspítala og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands, fluttu einnig erindi og Runólfur Pálsson forstjóri Landspítala var með opnunarorð og samantekt í lokin. Þátttakendur í pallborðsumræðum voru, auk Runólfs, Ásgeir Margeirsson, formaður stýrihóps Nýs Landspítala ohf. (NLSH), Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, formaður velferðarnefndar Alþingis, og María Heimisdóttir, læknir og fyrrverandi forstjóri Sjúkratrygginga Íslands.
Upptaka af málþinginu er aðgengileg í gegnum Facebook-síðu Landspítala þar sem áhugafólk um starfsemi Landspítala og stefnumótun í heilbrigðismálum getur kynnt sér efni þess.
Á málþinginu kom fram að íslenskt heilbrigðiskerfi stendur frammi fyrir sambærilegum áskorunum og heilbrigðiskerfi annarra Evrópulanda en þær felast meðal annars í breyttri íbúasamsetningu og hækkuðum meðalaldri. Alls staðar eru bundnar vonir við að stafræn tækni létti undir með störfum á spítala en jafnframt ljóst að slík tækni kallar á umtalsverða fjárfestingu og vandaða innleiðingu. Sérstaða Íslands felst þó meðal annars í því að vera eyja, fjarri öðrum heilbrigðiskerfum, og því þarf Landspítali að geta boðið upp á mikla sérhæfða þjónustu. Jafnframt eiga lýðfræðilegar breytingar sér stað í meira mæli hér en annars staðar á Norðurlöndum, meðal annars með innflutningi fólks og stærri kynslóðum sem nú nálgast efri ár.
Á málþinginu kom einnig fram að á sama tíma og menntun heilbrigðisstarfsfólks hefur orðið sérhæfðari hafa þarfir sjúklinga orðið almennari. Sífellt fleira fólk þarf á þverfaglegri þjónustu að halda til lengri tíma og það ætti að vera markmiðið að efla heilbrigðiskerfið til að takast á við það. Í íslensku samhengi er mikilvægt að treysta heilsugæsluna enn frekar og tryggja yfirsýn og ábyrgð stjórnvalda á því hvaða þjónusta er keypt af sérgreinalæknum og öðrum einkaaðilum.
Lykilfyrirlesari á málþinginu var Nigel Edwards, ráðgjafi hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni og fráfarandi framkvæmdastjóri The Nuffield Trust, breskrar hugveitu á sviði heilbrigðisþjónustu. Edwards hefur áratuga reynslu af stjórnunarstörfum, rannsóknum og stefnumótun innan heilbrigðisþjónustu og ríka þekkingu á heilbrigðiskerfum ólíkra landa. Sigríður Gunnarsdóttir, prófessor við hjúkrunarfræði- og ljósmóðurdeild Háskóla Íslands og fyrrverandi framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítala, og Davíð O. Arnar, yfirlæknir hjartalækninga á Landspítala og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands, fluttu einnig erindi og Runólfur Pálsson forstjóri Landspítala var með opnunarorð og samantekt í lokin. Þátttakendur í pallborðsumræðum voru, auk Runólfs, Ásgeir Margeirsson, formaður stýrihóps Nýs Landspítala ohf. (NLSH), Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, formaður velferðarnefndar Alþingis, og María Heimisdóttir, læknir og fyrrverandi forstjóri Sjúkratrygginga Íslands.
Upptaka af málþinginu er aðgengileg í gegnum Facebook-síðu Landspítala þar sem áhugafólk um starfsemi Landspítala og stefnumótun í heilbrigðismálum getur kynnt sér efni þess.