Fordómar gagnvart geðsjúkdómum var eitt af þemum á starfsdegi meðferðardeildar geðrofssjúkdóma 33A á Landspítala 6. október 2023.
Starfsfólk vann í hópum á starfsdeginum og ræddi hvernig fordómar birtast því bæði innan og utan heilbrigðiskerfisins. Flest hafði það orðið vart við áhrif af staðalmyndum um geðsjúkdóma, til dæmis að fólk með geðsjúkdóma væri allt eins og ímyndin, þá oft fengin úr afþreyingarefni. Umræða um eigin fordóma var opinská, rætt var um sjálfsfordóma sjúklinga og unnið með leiðir til að bregðast við birtingarmyndum fordóma í daglegu lífi.
Meðferðardeild geðrofssjúkdóma veitir meðferð allt frá bráðum veikindum og yfir í endurhæfingu. Á deildinni er unnið í þverfaglegum teymum og sjúklingar fá einstaklingsbundna meðferð. Innan deildarinnar starfa ráðgjafar, sjúkraliðar, læknar, hjúkrunarfræðingar, sálfræðingar, lyfjatæknar, iðjuþjálfi, félagsráðgjafi, tómstundafræðingur og atferlisfræðingur. Einnig er hægt að sækja þjónustu til sjúkraþjálfara.