Rannsóknarkjarni Landspítala - massagreiningareining tók á haustdögum 2023 í notkun tvö ný tæki, massagreini og vökvaþjark.
Nýju tækin
Annars vegar er um að ræða næman massagreini (LC-MS/MS) sem er mikilvæg viðbót við eldri massagreini deildarinnar. Nýi massagreinirinn eykur rekstraröryggi og gerir kleift að fjölga rannsóknaraðferðum sem gerðar eru með þessari tækni.
Hitt tækið er vökvaþjarkur sem mun auðvelda allan sýnaundirbúning fyrir massagreinamælingarnar. Hingað til hefur sýnaundirbúningurinn, sem er nauðsynlegt hreinsunarferli á sýnum fyrir massagreinamælingu, verið gerður með handvirkum hætti. Það ferli er oft í mörgum tímafrekum skrefum sem vökvaþjarkurinn mun héðan í frá framkvæma. Starfsfólk einingarinnar segir þessa viðbót verða byltingu, bæði hvað varðar gegnumstreymi sýna, verkferla og öryggi í svörum.
Rannsóknarkjarni - massagreiningareining
Rannsóknakjarni - massagreinaeining sinnir mælingum sem snúa bæði að sjúkdómsgreiningum og meðferðareftirliti á mismunandi sviðum. Dæmi um mælingar sem gerðar eru á massagreinum deildarinnar eru sterahormónin 17-hýdroxýprógesterón og andróstendíón, fríir metanefrínar í plasma, joðhexól til mælinga á gaukulsíunaraða, nokkur flogaveikilyf og sveppalyf.
Unnið er að uppsetningu á mæliaðferðum fyrir 18 sterahormón, fosfatidýletanól, clozapine og fleiri geðrofslyf. Fjöldi annarra mælinga eru á biðlista en óskir hafa komið víða að um uppsetningu á mælingum.
LC-MS/MS tæknin
LC-MS/MS tæki er vökvaskilja (HPLC) tengd massagreini (MS). Í vökvaskilju næst aðgreining á efnum sem verið er að mæla og massagreinirinn nemur efnin. Þessi mælitækni er ein sértækasta og næmasta mælitækni sem völ er á.