Blóðbankinn fagnar 70 ára afmæli í sínu í dag og hefur tímamótanna verið minnst með ráðstefnuröð þetta árið. Blóðbankinn var settur á stofn af mikilvægum frumkvöðlum sem sáu það að án öflugrar blóðbankaþjónustu væri ekki hægt að veita nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Starfsemin hefur vaxið og nú fer blóðsöfnun fram við Snorrabraut í Reykjavík, við Glerártorg á Akureyri og í Blóðbankabílnum víða um land. Blóðbankabíllinn var gjöf frá Rauða krossi Íslands árið 2002.
Í dag eru um sex þúsund virkir blóðgjafar og árlega þiggja um 2.500 einstaklingar blóðhlutagjafir. Stærstur hluti blóðgjafanna (67%) er karlar og sker Ísland sig þar frá ýmsum öðrum samanburðarlöndum. Í flestum nágrannalöndum okkar eru konur 45–55% virkra blóðgjafa og með kynningarstarfi er mögulegt að ná svipaðri stöðu og í öðrum löndum hvað varðar virka þátttöku kvenna í blóðgjöfum. Með góðu eftirliti með járnbirgðum má tryggja öryggi kvenna með sama hætti og öryggi karla.
Blóðbankinn er hluti af starfsemi Landspítala en veitir þjónustu á landsvísu fyrir allar heilbrigðisstofnanir sem þarfnast blóðhluta í sinni starfsemi. Um sextíu manns starfa hjá Blóðbankanum og þar koma saman fjölmargar fagstéttir sem sinna þjónustu, blóðsöfnun, blóðhlutavinnslu, gæðaeftirliti, afgreiðslu blóðhluta, vefjaflokkun, stofnfrumuvinnslu, vísindastarfi og fleiri verkefnum.
Nú á föstudag efnir Blóðbankinn til hátíðarráðstefnu í Hringsal þar sem fjallað verður um blóðbankaþjónustu í nútíð og framtíð. Blóðbankanum og íslensku samfélagi er óskað til hamingju með árin sjötíu. Mikilvægi starfseminnar fer síst minnkandi.