Um þessar mundir eru liðin tuttugu ár frá fyrstu nýrnaígræðslunni sem framkvæmd var á Íslandi en þann 2. desember 2003 var grætt nýra í Hörpu Arnþórsdóttur á Landspítala. Bróðir hennar, Eiríkur Ingi Arnþórsson, gaf henni nýrað og þeim heilsast báðum vel enn þann dag í dag.
Þessi fyrsta líffæraígræðsla sem framkvæmd var hér á landi krafðist mikils undirbúnings sem leiddur var af Jóhanni Jónssyni ígræðsluskurðlækni, sem starfaði á þessum tíma á Fairfax-sjúkrahúsinu í Virginíu í Bandaríkjunum, Runólfi Pálssyni nýrnalækni og Eiríki Jónssyni þáverandi yfirlækni þvagfæraskurðlækninga. Jóhann framkvæmdi aðgerðina ásamt Eiríki og Stefáni E. Matthíassyni æðaskurðlækni en auk þeirra og Runólfs kom að meðferðinni teymi heilbrigðisstarfsfólks á Landspítala.
Fram að þessum tíma hafði fólk þurft að fara erlendis til nýrnaígræðslu. Síðan þá hafa alls verið gerðar 125 ígræðslur nýrna úr lifandi gjöfum og 25 úr látnum gjöfum hér á landi. Á sama tíma hafa 120 Íslendingar fengið nýru úr látnum gjöfum á Sahlgrenska-háskólasjúkrahúsinu í Gautaborg og eru nýrnaþegar á Íslandi á þessu tímabili því samanlagt 270.
Í meðfylgjandi myndbandi er rætt við Hörpu og Eirík Inga um ígræðsluaðgerðina. Jóhann Jónsson lýsir aðdraganda ígræðslunnar og Rafn Hilmarsson yfirlæknir þvagfæraskurðlækninga fjallar í aðalatriðum hvernig nýrnaígræðsluaðgerðir eru gerðar.
Í myndbandinu lýsir Runólfur Pálsson, sem nú er forstjóri Landspítala, fyrstu nýrnaígræðslunni á Íslandi sem straumhvörfum sem meðal annars leiddu til þess að komið var á heildrænu líffæraígræðsluteymi á spítalanum. Eiríkur Jónsson bendir á að þetta mikla framfaraskref hafi haft keðjuverkandi áhrif á aðrar greinar og einnig aukið áhuga ungra lækna til að sérhæfa sig á þessu sviði. Einnig er rætt við Margréti Birnu Andrésdóttur, yfirlækni nýrnalækninga, sem rekur ígræðslusöguna í stórum dráttum og aðkomu vefjaflokkunardeildar Blóðbankans, sem hún segir á heimsmælikvarða.
20 ár frá fyrstu nýrnaígræðslunni from Landspítali on Vimeo.