Þýðingarmikið skref í átt að auknu réttaröryggi heilbrigðisstarfsfólks var stigið í gær þegar Alþingi samþykkti frumvarp heilbrigðisráðherra um refsiábyrgð heilbrigðisstofnana og rannsókn alvarlegra atvika. Markmið laganna er að efla öryggismenningu innan heilbrigðisþjónustunnar, fækka alvarlegum atvikum og skýra og auka réttaröryggi heilbrigðisstarfsfólks. Landspítali hefur lengi kallað eftir þessum breytingum sem færa lagaumgjörðina nær því sem þekkist á hinum Norðurlöndunum. Þar er hægt að draga heilbrigðisstofnanir til ábyrgðar ef alvarleg atvik eiga sér stað, fremur en eingöngu starfsfólk. Í nefndaráliti meirihluta velferðarnefndar kemur fram að meirihlutinn undirstriki „mikilvægi þess að heilbrigðisstarfsfólk geti unnið vinnu sína af öryggi og fagmennsku og með vissu um að það verði ekki dregið til ábyrgðar vegna aðstæðna sem það getur ekki borið ábyrgð á.“
Alþingi samþykkti einnig að í upphafi árs 2024 myndi heilbrigðisráðherra skipa starfshóp sem falið verður að greina fyrirkomulag rannsókna á alvarlegum atvikum í heilbrigðisþjónustu og meta hvaða fyrirkomulag væri best til þess fallið að tryggja óháða málsmeðferð. Hópnum er ætlað að skila niðurstöðu fyrir lok apríl en lögin taka gildi 1. september 2024.
Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala:
„Mistök í heilbrigðisþjónustu eru oft afleiðing margra samverkandi og stundum kerfisbundinna þátta. Það hefur reynst starfsfólki mjög þungbært þegar það er dregið til ábyrgðar sem einstaklingar fyrir atvik sem geta með engu móti verið alfarið á þeirra ábyrgð. Með samþykkt frumvarps heilbrigðisráðherra er öryggi sjúklinga sett í öndvegi en á sama tíma tryggt að tekist sé á við alvarleg atvik með sanngirni og réttlæti að leiðarljósi og með það að markmiði að fyrirbyggja að mistök endurtaki sig.“