Í lok annasams árs er bæði hollt og hvetjandi að líta yfir farinn veg og minnast þess sem áunnist hefur. Jafnframt er mikilvægt að staldra við og átta sig á því sem betur hefði mátt fara í því skyni að draga lærdóm og tryggja umbætur. Heilt yfir er ég afar stoltur af árangri spítalans og þakklátur fyrir framlag starfsfólks.
Árið 2023 hefur á margan hátt verið framúrskarandi á Landspítala. Veruleg aukning hefur orðið á flestum sviðum þjónustunnar á sama tíma og verkefnin verða æ meira krefjandi og reyna því mjög á fagmennsku og styrk starfsfólks spítalans. Hefur starfsfólkið staðið undir þessu álagi með sóma og sýnt að það býr yfir mikilli fagþekkingu og færni en einnig umhyggju og alúð.
Við stöndum að mörgu leyti á tímamótum. Við lifum skeið örra samfélagsbreytinga sem gera það að verkum að eftirspurn eftir þjónustu Landspítala eykst stöðugt. Þessi framvinda kallar á veigamiklar breytingar innan spítalans sem meðal annars felast í uppstokkun skipulags og stóraukinni nýtingu stafrænna lausna. Ljóst er að slíkar breytingar reyna á starfsfólk en hafa þarf hugfast að breytingar eru forsenda framþróunar. Án þeirra mun spítalinn ekki ráða við fyrirsjáanlega verkefnaaukningu næstu ára.
Á komandi ári verður ráðist í boðaðar breytingar á skipulagi framlínustjórnunar á spítalanum. Eins og áður verða hagsmunir sjúklinga hafðir að leiðarljósi. Að baki ákvörðunum um breytingar á skipuriti býr umfangsmikil greiningarvinna sem bent hefur til þess að stuðningi við starfsmenn framlínu spítalans sé ábótavant. Bind ég því vonir við að breytingarnar bæti starfsumhverfið og auki starfsánægju og áhuga fyrir störfum á spítalanum.
Landspítali er um margt afar merkileg stofnun. Spítalinn er stærsta stofnun landsins, stærsti vinnustaður landsins og þungamiðja íslenskrar heilbrigðisþjónustu. Hingað leita sjúkir og slasaðir lausna þegar önnur úrræði þrjóta eða þegar bráðleiki er mikill. Hér vinnur starfsfólk óeigingjarnt starf allan sólarhringinn, alla daga ársins til að líkna og lækna þá sem eru í mestri þörf fyrir stuðning og þjónustu. Hér sýnir starfsfólk ómældan sveigjanleika þegar viðfangsefnin banka upp á, hvort sem það er til að takast á við heimsfaraldur eða manna vaktir á tímum veikinda.
En þótt klínísk þjónusta sé stærsta hlutverk spítalans má ekki gleymast að Landspítali er háskólasjúkrahús þjóðarinnar sem annast stóran hluta menntunar heilbrigðisstarfsfólks ásamt því að vera ein helsta vísindastofnun landsins. Hlúa þarf sérstaklega að vísindahlutverki spítalans sem óneitanlega hefur ekki verið ræktað nægilega á undanförnum árum. Það má ekki gleymast að öflugar vísindarannsóknir eru grundvöllur nýsköpunar og þróunar þjónustu við sjúklinga.
Í lok annasams árs eru það ofangreindar staðreyndir sem standa upp úr í mínum huga. Ég er þakklátur og stoltur af því að fá að stýra Landspítala sem byggir fyrst og fremst á framúrskarandi mannauði. Á komandi ári er ég bjartsýnn á enn frekari árangur spítalans og hlakka til metnaðarfulls samstarfs.
Ég þakka starfsfólki samfylgdina á árinu sem er að líða og óska þeim og þeirra fjölskyldum, sjúklingum og aðstandendum og landsmönnum öllum gleðilegs árs og farsældar á nýju ári.
Runólfur Pálsson
Forstjóri