Talgreinir greinir nú lestur röntgenlækna og færir í textað form. Með því sparast tími og svör við greiningu mynda verða fyrr tilbúin. Áður voru ritarar sem slógu inn texta eftir hljóðriti sem síðan þurfti samþykki lækna.
„Talgreining er orðinn staðalbúnaður erlendis í myndgreiningu og því ánægjulegt að vera komin þetta langt að geta notað það hér“ segir Pétur Hannesson, yfirlæknir á röntgendeild.
„Hann skilur mig bara nokkuð vel, þrátt fyrir sænskuslettur“ segir Arnar Þórisson, settur yfirlæknir á röntgendeild Landspítala.
Fyrirtækið Tiro - Sjálfvirk talgreining sérhæfir sig í máltækni og hefur átt í miklu samstarfi við Landspítala um verkefnið. Eydís Huld Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Tíró, segir að helstu áskoranirnar séu latnesk heiti sem rituð eru á mismunandi hátt. Sértækar lausnir þurfi fyrir hverja sérgrein og nú er til að mynda unnið að lausn fyrir barnalækna og háls-, nef- og eyrnalækna.