Nýr og betri háþrýstiklefi er kominn í notkun á Landspítala sem leysir eldri klefa af hólmi. Háþrýstiklefar eru þekktir fyrir að veita meðferð við kafaraveiki en eru einnig notaðir í meðhöndlun á yfir 30 sjúkdómum. Klefinn rúmar allt að 14 manns í sæti en hægt er að breyta uppröðun og koma fyrir einu eða tveimur sjúkrarúmum.
Starfsfólki Landspítala bauðst að heimsækja háþrýstiklefann í vikunni og á fimmtudag og föstudag verður klefinn opinn almenningi, nánar tiltekið milli kl. 12 og 18 fimmtudaginn 25. janúar og milli 12 og 15:30 föstudaginn 26. janúar.
Þrjátíu ár eru síðan þessi þjónusta hófst við Landspítala í Fossvogi. Við deildina starfa læknar, hjúkrunarfræðingar og tæknimenn, öll sérhæfð í súrefnislækningum. Deildin er sú eina á Norður-Atlantshafssvæðinu og sinnir því öllum neyðartilfellum á Íslandi, Færeyjum og Grænlandi, auk tilfella frá herstöðvum innan þess svæðis. Deildin er til húsa í E2, Landspítala Fossvogi og hægt er að kynna sér starfsemina hér: is.icelandhyperbaric.com
Í myndbandi hér neðan segja Dr. Leonardo Sturla Giampaoli og Gréta Björk Valdimarsdóttir frá háþrýstiklefanum og starfsemi deildarinnar og fyrirtækisins sem rekur deildina. Myndbandið er á ensku og íslensku.
Nýr háþrýstiklefi tekinn í notkun from Landspítali on Vimeo.
Á myndinni í haus má sjá Grétu Björk Valdimarsdóttur ásamt þeim sem stærstan þátt eiga í því að verkefnið varð að veruleika. Það eru Einar Sindrason, háls- nef og eyrnalæknir, Magni Jónsson, lungnasérfræðingur, Ástráður B. Hreiðarsson, innkirtlasérfræðingur og Pétur Björnsson, konsúll og fyrrverandi ræðismaður Ítalíu á Íslandi.