Svanheiður Lóa Rafnsdóttir, yfirlæknir Brjóstamiðstöðvar Landspítala, leiðir nýjan samráðshóp heilbrigðisráðherra sem er falið að vinna áætlun um aðgerðir í krabbameinsmálum til fimm ára. Agnes Smáradóttir, yfirlæknir lyflækninga krabbameina, og Garðar Örn Þórsson, hjúkrunarfræðingur og verkefnastjóri á hjarta-, æða- og krabbameinssviði, eiga sæti í hópnum fyrir hönd Landspítala.
„Ég bind vonir við það að verkefnið skili okkur heildstæðri aðgerðaráætlun og vegvísi inn í framtíðina með möguleikum á að gera góða heilbrigðisþjónustu enn betri. Þetta er frábært framtak og ég er spennt að hefjast handa,“ segir Svanheiður Lóa.
Nýgreiningum krabbameins mun fjölga um helming á næstu fimmtán árum og það er Landspítala mikið kappsmál að geta áfram veitt framúrskarandi krabbameinsþjónustu. Því er til mikils að vinna að vinna að vel útfærðri og fjármagnaðri áætlun til að takast á við þær áskoranir sem fylgja öldrun og breyttri samsetningu þjóðarinnar.
Sjá einnig frétt á vef stjórnarráðsins: Ný aðgerðaráætlun í krabbameinsmálum
Á myndinni er: Frá vinstri Svanheiður Lóa, Agnes og Garðar Örn