Landspítali tók þátt í Þráðaþoni KLAKS í janúar þar sem markmiðið er að hanna lausnir til að sporna gegn sóun á textíl. Á Landspítala falla til um átta tonn af textíl á hverju ári og þar af eru tvö tonn af starfsmannafatnaði. Ástæðurnar eru aðallega göt og blettir eða veruleg slit. Almennt er textíllinn sendur til Rauða Krossins sem kemur honum til endurvinnslu erlendis. Sigurvegarar Þráðaþonsins í ár voru Flöff textílendurvinnsla sem ætlar að koma á fót innlendri endurvinnslu.
Þær tillögur sem lutu beint að Landspítala fólu meðal annars í sér að útbúa vörur úr starfsmannafatnaðinum sem geta nýst áfram í starfsemi spítalans. Þetta geta til dæmis verið grjónapúðar eða fatnaður fyrir fólk sem er að koma í krabbameinsskoðun. Landspítali mun vinna áfram með nýsköpunarfyrirtækjum að þessum hugmyndum.