Pistill frá forstjóra:
Ísland skipar sér í hóp þeirra landa sem komu hvað best úr heimsfaraldri COVID-19 sé litið til umframdauðsfalla. Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknar OECD sem birt var í nóvember sl. Í rannsókninni sem beindist að árunum 2020–2022 var leiðrétt fyrir breytingu í aldurssamsetningu þjóða miðað við staðlað þýði OECD. Slík nálgun er nauðsynleg því breytingar á samsetningu og stærð þýðis geta haft áhrif á dánartíðni á ákveðnu tímabili. Þetta er einkum mikilvægt þegar fjölgunin er aðallega meðal aldraðra þar sem þorri andláta (80%) á hverju ári er meðal 65 ára og eldri. Í öðrum úttektum á umframdauðsföllum meðan á faraldrinum stóð hefur ekki verið tekið tillit til lýðfræðilegra breytinga.
Á árunum 2015–2022 jókst mannfjöldi á Íslandi um 14% en fjölgunin meðal 65 ára og eldri var 27% Þessi fjölgun eldra fólks á Íslandi var langt umfram þá 19% fólksfjölgun sem varð innan þessa aldurshóps í OECD-löndunum í heild.
Rannsókn OCED sýnir að fjöldi andláta í aðildarlöndum stofnunarinnar á árunum 2020 til 2022 var 5,3% umfram viðbúinn fjölda dauðsfalla sé litið til árabilsins 2015–2019, eftir að leiðrétt var fyrir lýðfræðilegum breytingum. Enn fremur kemur fram að Ísland og átta önnur lönd komust hjá umframdauðsföllum á árunum 2020–2022 þegar faraldurinn geisaði. Fjöldi dauðsfalla á Íslandi var næstlægstur meðal OECD-þjóða og var aðeins Nýja-Sjáland með færri andlát miðað við íbúafjölda. Raunar voru dauðsföll á Íslandi 3,9% færri en við var að búast ef fjöldi og samsetning þjóðarinnar hefði verið í stöðugu horfi á árabilinu 2015–2022. Þessi niðurstaða bendir það til þess að sóttvarnaraðgerðir hafi í raun dregið úr dánartíðni almennt séð, ekki eingöngu vegna COVID-19.
Í rannsókninni kemur fram að umframdauðsföll á Íslandi voru færri árin 2020 og 2021 en árin á undan, en þeim fjölgaði hins vegar 2022 eftir að sóttvarnaraðgerðum var aflétt. Sama mynstur var fyrir hendi í Nýja Sjálandi en athygli vekur að í Svíþjóð, sem fór aðrar leiðir í sóttvarnaraðgerðum, var þróunin öfug, það er að segja að flest umfram dauðsföll voru í fyrstu bylgjum faraldursins árið 2020.
Árangur Íslands má þakka samhentum aðgerðum stjórnvalda og heilbrigðisstofnana, eftirfylgd almennings við sóttvarnarreglur og almennum skilningi á gildi bólusetninga. Á Landspítala lagðist allt starfsfólk á árarnar við að útfæra starfsemina á þann veg að hægt væri að mæta öllum þeim áskorunum sem faraldrinum fylgdu. COVID-göngudeildin var sérlega öflug og sú þjónusta sem veitt var á öllum deildum spítalans við erfiðar aðstæður var til fyrirmyndar. En þessu hafa auðvitað fylgt aðrar áskoranir, til dæmis þurfti að slá skurðaðgerðum sem ekki voru lífsnauðsynlegar á frest og við sjáum líka áhrif sóttvarnaraðgerða á geðheilbrigði bæði barna og fullorðinna. Afleiðingar sóttvarnaraðgerða, einkum samfélagstakmarkana, þarf að kanna vel. Markmiðið er að draga lærdóm af þessari reynslu en á heildina getum við verið stolt af þeim árangri sem við náðum í baráttunni við COVID-19.