Í dag 4. febrúar er alþjóðadagur krabbameins og nú, eins og síðast liðin tvö ár, er sjónum beint að því að tryggja góða krabbameinsþjónustu við alla sem hennar þarfnast. Á Landspítala starfa yfir 250 manns í þverfaglegum teymum við að veita bestu krabbameinsþjónustu sem völ er á.
Ljóst er að á næstu árum mun nýgreiningum krabbameins fjölga vegna fólksfjölgunar og breyttrar aldurssamsetningar. Innan krabbameinsþjónustunnar er unnið að því hörðum höndum að undirbúa þjónustuna fyrir breytingarnar. Húsnæðisskortur stendur starfseminni fyrir þrifum og tækjabúnaður er að hluta til kominn til ára sinna. Því er það fagnaðarefni að heilbrigðisráðherra hefur skipað starfshóp til að vinna áætlun um aðgerðir í krabbameinsmálum til fimm ára. Sú áætlun verður mikilvægur liður í að tryggja áframhaldandi framúrskarandi þjónustu við krabbameinssjúklinga á Íslandi.
Á Landspítala er unnið að því að þróa nýjungar í þjónustu við krabbameinssjúklinga og má þar m.a. nefna þróun krabbameinsgáttar sem er rafræn samskiptagátt. Einnig hóf Landspítali hnitmiðaða geislameðferð á heila fyrir ári sem getur gefist vel í völdum tilfellum. Símenntun er afar mikilvæg í þessu fagi þar sem framþróun er hröð. Við leggjum áherslu á gæði þjónustu byggða á bestu þekkingu á hverjum tíma og til að styrkja það enn frekar höfum við hafið undirbúning að fá alþjóðlega gæðavottun fyrir krabbameinsþjónustuna.