Hátíðarathöfn var haldin á dögunum fyrir hjúkrunarfræðinga og ljósmæður sem útskrifuðust úr sérfræðinámi.
Námið er til tveggja ára og fengu allir sem útskrifuðust afhent viðurkenningarskjal fyrir frábæran árangur á námstímanum.
Hátíðarútskriftin bar nafn með rentu og var fjöldi fólks saman kominn til að fagna þessum tímamótum.
Sjö útskrifuðust að þessu sinni og sækja þær allar um sérfræðiviðurkenningu í hjúkrun eða ljósmóðurfræði.
Hallfríður Kristín Jónsdóttir, ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi á meðgöngu og sængurlegudeild Landspítala. Sérhæfing hennar og áhersla í náminu var á brjóstagjöf með það að markmiði að allar konur og nýburar fái besta mögulega upphaf brjóstagjafar eftir fæðingu.
Arnfríður Magnúsdóttir, hjúkrunarfræðingur, geislameðferðardeild 10K. Sérhæfing hennar og áhersla í náminu var krabbameinshjúkrun og sjúklingar sem fá geislameðferð. Arnfríður er sú fyrsta sem sérhæfir sig á sviði geislameðferðar á Landspítala.
Fanný B. Miiller Jóhannsdóttir, hjúkrunarfræðingur, Vökudeild. Sérhæfing hennar og áhersla í náminu var gjörgæsluhjúkrun nýbura. Í náminu kom hún á fót ljósameðferð vegna nýburagulu í heimahúsi sem er nýjung á landsvísu sem er mikill sparnaður fyrir spítalann og eflir tengslamyndun barns og foreldra.
Guðrún Stefánsdóttir, hjúkrunarfræðingur, Vökudeild. Sérhæfing hennar er í gjörgæsluhjúkrun nýbura með sérstaka áherslu á lífsmörk og klínísk einkenni þeirra. Hún vinnur nú að hönnun rafræns matstækis um stigun á lífsmörkum og einkennum nýbura.
Margrét Björnsdóttir, hjúkrunarfræðingur, ígræðslugöngudeild 10-E. Sérhæfing hennar snýr að hjúkrun sjúklinga sem fá ígrædd líffæri svo sem nýru, lifur og hjarta. Þegar til kemur verður Margrét fyrsti sérfræðingurinn í hjúkrun á þessu sviði á Íslandi.
Sólveig Jóhanna Haraldsdóttir, hjúkrunarfræðingur, göngudeild taugasjúkdóma E2. Hennar sérhæfing er hjúkrun taugasjúkdóma og þá sérstaklega þá sem eru með MND sjúkdóminn og aðstandendur þeirra. Þessi sjúklingahópur og aðstandendur hans hafa flóknar og sérhæfðar hjúkrunarþarfir sem mikilvægt er að sinna.
Theja Lankathilaka, hjúkrunarfræðingur, Vökudeild. Hennar sérhæfing er gjörgæsluhjúkrun nýbura. Í sérnáminu lagði hún sérstaka áherslu á mat og meðhöndlun verkja hjá nýburum. Hún stofnaði verkjateymi á vökudeildinni og vann verklagsreglur um mat á verkjum og verkjameðferð nýbura á vökudeild.