„Frá sameindum til sniðlækninga: heildstæð aðstaða fyrir nútíma lífvísindi“ hlaut hæsta styrk úr Innviðasjóði við úthlutun í janúar 2024, tæpar 120 milljónir króna. Forsvarsmaður verkefnisins, sem Landspítali tekur þátt í, er Hans Tómas Björnsson yfirlæknir erfða- og sameindalæknisfræðideildar á spítalanum og prófessor við heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands.
Innviðasjóður auglýsir árlega innviðastyrki á svonefndum vegvísi og hins vegar almenna styrki. Framangreint verkefni er eitt af þeim sex á vegvísi sem hlutu styrk. Áætlaður heildarkostnaður við það nemur um 750 milljónum króna. Í verkefninu felst meðal annars að styrkja fimm stoðþjónustur sem hver um sig verði grunnstoð lífvísinda og vel búin til öflugs vísindastarfs; frumugreiningarsetur, myndgreiningarsetur, tilraunasetur, erfðatækni- og raðgreiningarsetur, aðstaða fyrir sprotafyrirtæki í líftækni og lyfjaþróun, sniðlækningar.
Fyrsti vegvísir um rannsóknarinnviði á Íslands var gefinn úr árið 2021 af mennta- og menningarmálaráðuneytinu í samvinnu við Innviðasjóð og Rannís og var verkefni Hans Tómasar eitt þeirra. Tilgangur með vegvísinum er að efla rannsóknarinnviði og mynda heildarstefnu í uppbyggingu rannsóknarinnviða á landinu. Þannig verði leitast við að auka gæði rannsókna, skapa öflugt rannsóknarumhverfi og styrkja möguleika Íslands til að sækja fram í rannsóknarstarfsemi.