Nýtt fræðsluefni um endómetríósu er nú aðgengilegt á vef Landspítala.
Þar er lýst einkennum sjúkdómsins, mögulegri meðferð og þjónustu sem veitt er á Landspítala. Efnið er unnið af Miðstöð sjúklingafræðslu á Landspítala í samvinnu við Endómetríósuteymi kvennadeildar og Endósamtökin. Við gerð þess var einnig leitað álits og ráða í hjúkrun sjúklinga með verki og næringarfræði.
Vonast er til að fræðsluefnið nýtist þeim sem þekkja endómetríósu af eigin raun eða í umgengni við sína nánustu. Tilgangur þess er einnig að breiða út almenna þekkingu um sjúkdóminn og auka skilning á ástandi sem skerðir lífsgæði fjölda kvenna um allan heim.