Samstarfssamningur velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og geðþjónustu Landspítala um þjónustu við einstaklinga sem nýta Laugarásinn meðferðargeðdeild hefur verið endurnýjaður. Á Laugaránum er boðið upp á sérhæfða meðferð fyrir ungt fólk á aldrinum 18 til 35 ára með byrjandi geðrofssjúkdóm.
Í samningnum felst að velferðarsvið útvegar tvær leiguíbúðir árlega næstu þrjú árin. Íbúðirnar verða heimili einstaklinga sem fá meðferð á Laugarási. Auk þess að fá íbúð munu þau sem veljast til þátttöku í samstarfsverkefninu fá stuðning frá velferðarsviði. Stuðningurinn er útfærður á einstaklingsmiðaðan hátt í stuðningsáætlun hvers og eins en hann á að vera heildstæður og sveigjanlegur með áherslu á batahugmyndafræði, valdeflingu og stuðning við sjálfstætt líf. Leiðarljósið er að auka líkur á sjálfstæðri búsetu einstaklinga til framtíðar, með eða án stuðnings frá Reykjavíkurborg.
Á myndinni eru Rannveig Einarsdóttir, Aðalbjörg Traustadóttir, Þóra Björk Bjarnadóttir, Elín Ósk Ásgeirsdóttir og Jón Birgir Einarsson af velferðarsviði auk Söndru Sif Gunnarsdóttur og Nönnu Briem frá Landspítalanum.
Samstarf heilbrigðisstofnana og félagsþjónustu afar mikilvægt
Laugarásinn ber ábyrgð á lyfjameðferð einstaklinganna og veitir starfsfólki velferðarsviðs aðgang að fræðslu, handleiðslu og ráðgjöf. Þá mun starfsfólk Laugarássins veita starfsfólki Reykjavíkurborgar og notendum þjónustunnar faglega aðstoð í þeim tilfellum þegar einstaklingur hefur lokið þátttöku í verkefninu en þarf áfram á stuðningi að halda, þar til búið er að tryggja áframhaldandi stuðning frá heilbrigðiskerfinu.
Nanna Briem, framkvæmdastjóri geðþjónustu Landspítalans, fagnar áframhaldandi samstarfi um Laugarásinn. „Ég er mjög ánægð með að við höfum endurnýjað þennan samning. Það segir mér að þetta samstarf milli spítalans og Reykjavíkurborgar skipti máli og gagnist fyrir þennan hóp ungs fólks sem glímir við geðrofssjúkdóma. Samstarf heilbrigðisstofnunar og félagsþjónustu af þessu tagi er afar mikilvægt. Við hjá Landspítalanum og velferðarsviði eigum einnig í samstarfi um vettvangsgeðteymi og ég er viss um að samstarf á fleiri sviðum geti gagnast víðar. Það sama gildir auðvitað um hin sveitarfélögin.“
Hún segir að það sé stór hópur notenda þjónustu Landspítalans sem einnig þurfi á þjónustu velferðarkerfis sveitarfélaga að halda. Besta leiðin til að veita þeim góða þjónustu sé í gegnum samstarf. „Við vitum að meðferð og endurhæfing gagnast oft betur ef hún fer fram, eins mikið og hægt er, í nærumhverfi notenda. Það er ekki inni á sjúkrahúsi, heldur úti í samfélaginu. Ef við getum verið í svona góðu samstarfi, sem leiðir til þess að ungt fólk með alvarlegan langvinnan sjúkdóm getur búið sjálfstætt í íbúð úti í samfélaginu með viðeigandi stuðningi, þá er það náttúrlega bara stórkostlegt.“
Endurnýjun samningsins mikið gæfuspor
Í sama streng tekur Rannveig Einarsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkur. „Endurnýjun samningsins um samstarf velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og geðsviðs Landspítlans um sérhæfða þjónustu fyrir ungt fólk er mikið gæfuspor. Við höfum góða reynslu af samstarfinu en fyrri samningur er frá árinu 2017. Þessi samvinna skiptir sköpum í þjónustu við ungt fólk sem þarf á heilbrigðis- og velferðarþjónustu að halda og algjört lykilatriði að kerfin vinni vel saman. Okkur hefur tekist í sameiningu að samþætta þjónustuna og munum gera áfram. Samningurinn ætti að vera fyrirmynd fyrir önnur sveitarfélög í þjónustu við sína íbúa. Við hlökkum til áframhaldandi samstarfs,” segir hún.