Í dag er alþjóðlegur dagur svefns og þá taka svefnsérfræðingar höndum saman og minna á mikilvægi góðs nætursvefns.
Dr. Erla Björnsdóttir er einn af þessum sérfræðingum. Hún er stofnandi og framkvæmdastjóri fyrirtækisins Betri svefns sem setur í loftið í dag snjallforritið Shesleep, fyrsta svefnforritið í heiminum sem er eingöngu fyrir konur.
Fyrir tíu árum síðan hlaut Erla viðurkenninguna ungur vísindamaður Landspítala sem veitt er á Vísindum á vordögum, árlegri uppskeruhátíð vísindastarfs spítalans. Þá þegar hafði Erla unnið brautryðjendastarf í rannsóknum á langvarandi svefnleysi og kæfisvefni og áhrifum svefnleysis á líðan og lífsgæði fólks.
Um leið og Landspítali óskar Erlu til hamingju með nýja snjallforritið minnir Vísindaráð Landspítala á að frestur til að senda inn ágrip veggspjalds fyrir Vísindi á vordögum 2024 rennur út 25. mars næstkomandi. Það er mikilvægt að hið gróskumikla vísindastarf Landspítala sé vel kynnt á uppskeruhátíðinni, en hún er mikilvægur liður í að hvetja til rannsókna sem stuðla að framförum í heilbrigðisþjónustu. Hægt er að senda inn ágrip hér.