Gáttin hefur þríþætta notkun sem felst í því að sjúklingar geta fengið sent fræðsluefni, svarað spurningalistum og sent inn fyrirspurnir.
Í krabbameinsmeðferð koma eðlilega upp alls kyns spurningar og er gáttin hugsuð sem staður þar sem sjúklingar geta fengið svör og lesið sér til.
Ef sjúklingar merkja við tiltekin einkenni í spurningalistum fá þeir sjálfkrafa sent viðeigandi fræðsluefni. Þeir sjúklingar sem skora hátt á spurningalistum eru auk þess flaggaðir í viðmóti starfsfólks, sem getur þá gert viðeigandi ráðstafanir.
Með notkun gáttarinnar er sjúklingurinn betur undirbúinn fyrir meðferð því hann hefur getað lesið sér til heima og er meðvitaður um ferlið framundan. Auk þess gefur gáttin mikilvægar upplýsingar fyrir starfsfólk sem er betur undirbúið fyrir komu sjúklinga.
Krabbameinsgáttin varð til með samstarfi Landspítala við einvala lið hjá embætti Landlæknis, Origo/Helix, Krabbameinsfélagi höfuðborgarsvæðisins og Krabbameinsfélagi Íslands. Krabbameinsfélögin studdu verkefnið með veglegum fjárstuðningi.
Nánar má lesa um krabbameinsgáttina í rannsóknargrein sem birt var í National Library of Medicine í desember síðastliðnum.
Viðmælendur Í myndbandinu eru Kristín Skúladóttir, hjúkrunarfræðingur og verkefnastjóri á verkefnastofu Landspítala, Valdís Ólafsdóttir, hjúkrunarfræðingur á 11B og Elísabet Stefánsdóttir.