Sæmundur lauk læknanámi við Háskóla Íslands haustið 2017 en vísindaferill hans hófst árið 2016 þegar hann hóf doktorsnám undir handleiðslu Sigurðar Yngva Kristinssonar blóðlæknis og prófessors. Síðan þá hefur Sæmundur starfað náið með Sigurði og öðru samstarfsfólki við rannsóknina Blóðskimun til bjargar, lýðgrundaða skimunarrannsókn á Íslandi með það að markmiði að kanna mögulegan ávinning þess að skima fyrir góðkynja einstofna mótefnahækkun (e. Monoclonal gammopathy of undetermined significance, MGUS) sem er forstig mergæxlis og skyldra krabbameina.
Sæmundur varði doktorsritgerð sína „Góðkynja einstofna mótefnahækkun?“ um klínískt mikivægi MGUS í október 2022. Eftir doktorsútskrift hefur hann haldið áfram sem hluti rannsóknarteymis Blóðskimunar til bjargar en einnig lagt áherslu á að rannsaka tilurð MGUS og þannig upphaf þessara krabbameina og tengsl MGUS við ýmsa sjúkdóma sem ekki eru krabbamein.
Sæmundur fékk nýlega verkefnastyrk frá Rannís til að rannsaka betur tengsl MGUS og annarra sjúkdóma auk þess sem hann fær nú hvatningastyrk úr Vísindasjóði Landspítala til að hefja rannsóknir á frumum í nærumhverfi krabbameinsfruma í MGUS.
Sem klínískur læknir hefur Sæmundur starfað víðsvegar um land en starfar nú fyrst og fremst sem sérnámslæknir í lyflækningum á Landspítala. Meðfram því hefur hann verið virkur í kennslu við læknadeild HÍ og er nú umsjónarkennari rannsóknarverkefna læknanema auk þess sem hann hefur leiðbeint fjölda BSc og MSc nema í læknavísindum.
Sem kennari, læknir og rannsakandi leggur Sæmundur mikla áherslu á samþættingu klínískra starfa og vísinda og trúir á gagnsemi og samlegðaráhrif sem felast í því að nota og skapa nýja þekkingu á sama tíma.
Hér má sjá viðtal sem tekið var við Sæmund í tilefni heiðrunarinnar.
Sæmundur Rögnvaldsson - ungur vísindamaður Landspítala 2024 from Landspítali on Vimeo.