Með fjarskiptalækningum verður mögulegt að veita ráðleggingar um meðferð til heilbrigðisstarfsfólks og að taka ákvarðanir um forgang á sjúkraflutningi.
Við undirbúning verkefnisins fór fram ítarleg greiningarvinna í viðbragðsteymum bráðaþjónustu sem unnin var á vegum heilbrigðisráðuneytisins. Þar kom fram skýr ósk um að það væri læknir sem gæti stutt við alla aðila sem sinna bráðaþjónustu á landinu.
Hugmyndin er að fjarskiptalæknir geti stutt við Neyðarlínuna í að virkja þyrluna þegar á þarf að halda og forgangsraða sjúkrabílum og sjúkraflugi. Hann mun einnig styðja við vinnu sjúkraflutningamanna til að sinna sjúklingum betur eða koma þeim í annan farveg en að flytja þá beint á spítala. Að lokum á hann að styðja við heilbrigðisstarfsfólk á sjúkrastofnunum um land allt sem er að sinna bráðaþjónustu
Fjarskiptalæknirinn verður staðsettur í Björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð þar sem unnið er í nánu samstarfi við Neyðarlínuna. Verkefnið er sett upp í samstarfi við alla þá aðila sem fjarskiptalækni er ætlað að þjónusta, svo sem Landhelgisgæsluna, sjúkraflugið og heilbrigðisstofnanir á öllu landinu.
Um er að ræða tilraunaverkefni til áramóta en með því standa vonir til að auka gæði bráðaþjónustu um land allt og að auðvelda sjúklingum að komast strax í réttan farveg innan heilbrigðiskerfisins.
Í myndbandinu er rætt við Jón Magnús Kristjánsson, sérfræðing í bráðalækningum.
Fjarskiptalækningar from Landspítali on Vimeo.