Frjálslynd lög um þungunarrof komu til á Norðurlöndunum fyrir um 50 árum, - árið 1975 á Íslandi.
Ný norræn rannsókn sem birt var í hinu virta bandaríska og alþjóðlega tímariti PLOS ONE Medicine sýnir að í upphafi fjölgaði þungunarrofsaðgerðum eftir lagabreytingar landanna, eins og vænta mátti. Ólöglegt þungunarrof heyrði þá sögunni til og vönduð skráning var tekin upp í öllum löndunum. Fljótlega dró úr fjölgun skráðra aðgerða og hlutfall þungunarrofsaðgerða varð stöðugt í öllum löndunum og hefur haldist þannig síðan.
Hlutfallið hefur víðast hvar jafnvel lækkað miðað við fjölda kvenna á frjósemisaldri, einkum hjá konum undir 25 ára aldri. Það er nú lægra á Norðurlöndum en víða annars staðar í Evrópu og vestrænum ríkjum. Á Íslandi er hlutfallið milli þungunarrofsaðgerða og fæðinga um 1:5 (um 900 þungunarrof á móti 4.500 fæðingum).
Frelsi til ákvörðunar hefur því tengst ábyrgri afstöðu kvenna (og karla) til þungunar og barneigna. Engar „flóðgáttir“ opnuðust og almenn sátt hefur ríkt í samfélaginu um félagslega nauðsyn þess að þungunarrof sé aðgengilegt sem úrræði þegar á þarf að halda.
Betri greining á náttúrulegum fósturlátum og öðrum afbrigðilegum þungunum, svo og betri tímasetning þungana með ómskoðun hefur gert þungunarrof markvissara. Jafnframt hefur þróun seinni ára verið sú að 80-86% þungunarrofsaðgerða fara fram fyrr í meðgöngunni en áður, eða fyrir 9 vikur frá síðustu tíðum (innan sjö vikna frá tilurð þungunar).
Með auknum sjálfsákvörðunarrétti kvenna á Íslandi eftir gildistöku nýrra laga um þungunarrof árið 2019 hefur það einnig orðið reyndin hér á landi. Betri getnaðarvarnir og aðgengi að neyðargetnaðarvörn með einfaldri lyfjagjöf hefur stutt þessa jákvæðu þróun.
Langflest þungunarrof eru ekki lengur gerð á skurðstofu og í svæfingu með útsogsaðgerð til að tæma leg, heldur er beitt lyfjameðferð sem gerir það að verkum að þungunarrof líkist náttúrulegu fósturláti. Síðkomin þungunarrof eru fá hér á landi eins og á Norðurlöndunum almennt og þeim hefur heldur ekki fjölgað. Þau má framkvæma fram að 22 vikum (20 vikur frá getnaði) en ekki eftir það. Langflest þannig tilvik eru vegna alvarlegra sköpulags- eða litningagalla sem uppgötvast með fósturgreiningu. Nýjar tölur frá embætti landlæknis og úr óbirtri íslenskri rannsókn staðfesta þetta.
Greinin í PLOS ONE tímaritinu sýnir sömu þróun varðandi þungunarrof á Norðurlöndunum öllum. Aðgerðum hefur ekki fjölgað og jafnvel hefur dregið úr algengi þeirra, sérlega í yngri aldursflokkum. Beinna aðgengi kvenna að þungunarrofi þegar það úrræði þarf, og gott aðgengi að getnaðarvörnum, helst í hendur við ábyrga afstöðu í samfélaginu öllu.
Hér má sjá umfjöllun um málið í kvöldfréttum RÚV þar sem meðal annars er rætt er við Reyni Tómas Geirsson, yfirlækni á kvennadeild Landspítala, sem er meðhöfundur rannsóknarinnar.