Í flokknum Umhyggja voru tvö teymi sem vinna náið saman heiðruð í ár, en það voru Lungnateymi og Heimaöndunarvélateymi Landspítala
Lungnateymið þjónustar fólk með langvinna lungnasjúkdóma af ýmsum toga og fer heim til þeirra sem ekki geta komist úr húsi með góðu móti. Teymið vinnur í þverfaglegu samstarfi við lungnalækna og aðrar fagstéttir innan spítalans með það markmið að veita bestu mögulega þjónustu hverju sinni.
Heimaöndunarvélateymið samanstendur af læknum og hjúkrunarfræðingum sem fylgja eftir einstaklingum sem þurfa að nota öndunarvél jafnvel allan sólarhringinn. Oft er um að ræða sjúklinga í gríðarlega erfiðri stöðu og er vinnan með þeim krefjandi en á sama tíma mjög gefandi.
Umsögn valnefndar: „Teymin tvö starfa saman og hafa meðal annars fækkað komum á bráðamóttöku, fækkað innlögnum langveikra lungnasjúklinga, bætt líðan þeirra og öryggi. Einnig hafa þau gert mörgum sjúklingum kleift að búa heima í staðinn fyrir að dvelja á spítala eða öðrum stofnunum.“